Tæknifyrirtækið Stika Solutions, sem framleiðir m.a. hátækniflokkunarbúnaðinn snjallsorp, horfir nú bæði til Norðurlandanna og nýrra markaða innanlands og erlendis fyrir vöruna.
Eins og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu hefur lausnin verið innleidd með góðum árangri hjá stórum fasteignafélögum og í sjávarútvegi.
Sem dæmi um virkni lausnarinnar hjá fasteignafélögum þá fær hver og einn leigutaki aðgangskort sem hann notar til að komast inn í sorpflokkunarrými. Kortið er svo borið upp að aðgangsstýrðum lúgum. Á bak við þær eru ílát og undir þeim vogir sem mæla þyngdaraukningu ílátsins með rafrænum hætti og skrá þyngd þess sem hent er, ásamt úrgangsflokki. Gögnin fara upp í skýið og er varpað fram í mælaborði sem heldur utan um magn og flokkun úrgangs í rauntíma eftir leigutökum.
„Við erum farin að horfa út fyrir landsteinana með vöruna og viljum einnig auka útbreiðsluna á Íslandi. Þessi tækni nýtist einnig sjávarútvegsfyrirtækjum og öðrum félögum í framleiðslutengdum iðnaði. Þá lítum við til alþjóðaflugvalla en lausnin smellpassar fyrir þeirra starfsemi,“ segir Magnús Júlíusson framkvæmdastjóri Stiku.
Hann segir að úrgang sé einfalt að mæla. Því sé auðvelt að móta sér stefnu og markmið. „Lausnin smellpassar inn í þann sjálfbærniramma sem mörg fyrirtæki vinna eftir í dag.“
Þar á Magnús bæði við kröfur til fyrirtækja um upplýsingagjöf um sjálfbærni en einnig um græna fjármögnun sem býðst fyrirtækjum sem uppfylla tilteknar sjálfbærnikröfur.
Einn af stóru kostunum við að nota snjallsorpslausnina er að fasteignafélögin geta rukkað leigutaka sína í samræmi við sorpflokkun hvers og eins. „Sumir henda miklu og aðrir litlu. Það er ósanngjarnt að allir greiði það sama fyrir sorphirðu, óháð frammistöðu við flokkun.“
Annar kostur við snjallsorpið er að það hjálpar notendum að halda utan um kolefnislosun vegna úrgangs en þær upplýsingar þurfa fyrirtæki í auknum mæli að skrá í sitt sjálfbærnibókhald. „Þarna ertu því að slá margar flugur í einu höggi,“ útskýrir Magnús.
Hann segir að félagið sé vel fjármagnað. Hluthafar séu auk hans sjálfs og starfsmanna t.d. útgerðarfélögin Ísfélagið, Brim og Fisk Seafood ásamt Kaupfélagi Skagfirðinga og fjárfestirinn Bjarni Ármannsson. „Við erum heppin að hafa öfluga aðila í hluthafahópnum, sem ráða yfir mikilli þekkingu og hafa metnað til að ná árangri þegar kemur að sjálfbærni. Við höfum einnig verið í góðu samstarfi við Íslenska gámafélagið“
Fyrr á þessu ári keypti Stika hugbúnaðarlausnina Skjöld sem er fullbúið áhættustjórnunarkerfi (Enterprise Risk Management; ERM). „Nú getum við fylgt viðskiptavinum okkar eftir frá a-ö hvað varðar nýja sjálfbærniupplýsingalöggjöf Evrópusambandsins (CSRD). Skjöld hefur verið í þróun í meira en áratug og er í notkun hjá mörgum af stærstu fyrirtækjum á Íslandi. Stika samþættir Skjöld og kröfur nýrra staðla í sjálfbærniupplýsingagjöf í Stiku ERM. Við erum því ekki að koma með enn eitt kerfið á markaðinn heldur að byggja á þekktu viðurkenndu verklagi sem hefur fengið vottanir og leysir þennan málaflokk með hagkvæmum hætti,“ segir Magnús að lokum.