Stjórn Símans hefur ákveðið að veita Maríu Björk Einarsdóttur, forstjóra Símans, og tveimur framkvæmdastjórum hjá félaginu, þeim Birki Ágústssyni og Vésteini Gauta Haukssyni, kauprétt að 22,5 milljón hlutum í fyrirtækinu, eða sem samsvarar 0,85% af útgefnu hlutafé félagsins.
Byggir ákvörðunin á samþykki aðalfundar í fyrra, en þar var forstjóra veittur kaupréttur að helmingi þeirra hluta, eða 11,25 milljón hlutum.
Fær María kauprétti að 11,25 milljón hlutum, en þeir Birkir og Vésteinn að helmingi þess hvor.
Vésteinn er framkvæmdastjóri auglýsingamiðlunar, en Birkir er framkvæmdastjóri miðla hjá fyrirtækinu.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að kauprétturinn sé veittur á grunnverðinu 12,31 krónum á hlut, en gengi hluta í félaginu við lok viðskipta í gær var 12,30 krónur á hlut. Bréf félagsins hafa hækkað um 1,63% í 32 milljóna viðskiptum það sem af er degi og standa þegar þetta er skrifað í 12,5 krónum á hlut.
Samkvæmt tilkynningunni ávinnst kauprétturinn á þremur árum frá úthlutun. Eftir það verða kaupréttirnir nýtanlegir í þremur áföngum eftir birtingu ársuppgjörs eða hálfsársuppgjörs innan hvers tímabils, en hægt er að fresta nýtingu kaupréttarins til næsta nýtingartímabils.
Almennt skulu kaupréttir falla niður ef viðkomandi starfsmaður hættir störfum hjá fyrirtækinu, en þó með þeirri undantekningu að ef til starfsloka kemur sem viðkomandi starfsmanni verður ekki kennt um fær hann að halda kaupréttinum.
Þá er tekið fram að heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Síminn hefur veitt stjórnendum og tilteknum lykilstarfsmönnum nemi nú 69.375.000 hlutum, eða 2,62% hlutafjár. Um er að ræða 19 starfsmenn í það heila og er heildarkostnaður félagsins vegna útistandandi samninga út nýtingartímann áætlaður 90 milljónir.