Hagar kaupa SMS í Færeyjum

Á myndinni eru Magnús Magnússon, aðstoðarforstjóri og Eiríkur Jóhannsson, stjórnarformaður, …
Á myndinni eru Magnús Magnússon, aðstoðarforstjóri og Eiríkur Jóhannsson, stjórnarformaður, Niels Mortensen, forstjóri og eigandi SMS, Mortan Johannessen og Niles Johannesson sem eru einnig eigendur. Ljósmynd/Aðsend

Búið er að undirrita kaupsamning um kaup Haga hf. á P/F SMS í Færeyjum, sem rekur m.a. átta Bónus verslanir, og kaupverðið nemur rúmlega níu milljörðum króna, eða 467 milljónum danskra króna. Virði hlutafjár nemur um 6,3 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu Haga.

Öll skilyrði vegna kaupanna hafa verið uppfyllt, þar með talið áreiðanleikakönnun og samþykki eftirlitsaðila í Færeyjum. Hagar segja að markmið kaupanna sé að renna frekari stoðum undir og styrkja rekstur Haga á sviði dagvöruverslunar og auka skilvirkni rekstrar og vöruúrval SMS í Færeyjum.

Greiða 267 milljónir danskra króna með reiðufé

Hagar greiða kaupverð með reiðufé að upphæð um 267 milljónum danskra króna og afhendingu 13.867.495 hluta í Högum að virði 60 milljónum danskra króna. Meðalgengi á hlutum Haga í viðskiptunum var 85,23 kr., sem byggir að stærstu leyti á dagslokagengi Haga þann 18. október.

Endanlegt uppgjör vegna kaupanna gæti breyst lítillega, að er kemur fram í tilkynningunni, tengt rekstrarafkomu SMS á næstu 2-3 árum.

Hagar fjármögnuðu hluta kaupverðs með nýju 200 milljóna danskra króna láni en til viðbótar yfirtaka Hagar nettó skuldir SMS upp á um það bil 140 milljónir danskra króna. Skuldsetning Haga eykst sem því nemur.

Munu áfram njóta forystu forstjóra SMS

Miðað er við að uppgjörsdagur vegna kaupanna sé mánudagurinn 2. desember

„Það er mér mikil ánægja að bjóða SMS í Færeyjum velkomin í Haga fjölskylduna. Við höfum á síðustu mánuðum kynnst starfsemi SMS vel, en fyrirtækið er bæði vel rekið og þjónar mikilvægu hlutverki í færeysku samfélagi. Áherslur í starfsemi SMS, m.a. á hagkvæmustu matarkörfuna og góða upplifun í verslunum, ríma vel við leiðarljós okkar hjá Högum. Við erum stolt af því að vera treyst fyrir eignarhaldi á SMS til framtíðar og munum styðja við áframhaldandi þróun og vöxt félagsins, Færeyingum til hagsbóta,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga, sem heldur áfram:

„SMS mun áfram njóta forystu Niels Mortensen, forstjóra, sem hefur leitt kröftuga uppbyggingu félagsins undanfarna tvo áratugi. Við hlökkum til samstarfs við Niels og framúrskarandi hóp starfsfólks í Færeyjum um að efla góðan rekstur enn frekar, m.a. með því að nýta tækifæri til að auka hagkvæmni, efla vöruval og þjónustu við landsmenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka