Grindavíkuráhrifin eru tekin að fjara út og fólk heldur að sér höndum nú þegar vaxtalækkunarferlið er nýhafið og glittir í ódýrari fjármögnun.
Þetta kemur fram í greiningu greiningardeildar Landsbankans. Nýjustu gögn af íbúðamarkaði benda til þess að lítillega hafi dregið úr eftirspurn en verðið gæti tekið hratt við sér þegar vaxtastig lækkar enn frekar.
Vísitala íbúðaverðs hækkaði aðeins um 0,2% á milli mánaða í október og lækkaði um 0,3% í september, eftir að hafa hækkað um að jafnaði eitt prósent mánuðina á undan. Tólf mánaða taktur íbúðaverðs mældist 8,7% í október en síðastliðið ár hefur verð hækkað nokkurn veginn jafnhratt á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir hagfræðingur í greiningardeild Landsbankans segir í samtali við Morgunblaðið að íbúðaverð hafi hækkað nokkuð umfram almennt verðlag í landinu á undanförnum 12 mánuðum og undirritaðir kaupsamningar hafi verið miklu fleiri á þessu ári en í fyrra.
„Hamfarirnar í Grindavík hafa leikið stórt hlutverk í þessu, eftirspurn eftir íbúðum jókst skyndilega og kynti undir verðhækkunum, eins og við var að búast. Þessi áhrif virðast smám saman vera að fjara út,“ segir Hildur og bætir við að forvitnilegt verði að fylgjast með því hversu hratt vaxtalækkanir blása lífi í íbúðamarkaðinn.
Hildur segir að nýleg úthlutun hlutdeildarlána gæti ýtt upp vísitölu íbúðaverðs.
„Þótt vextir séu farnir að lækka eru þeir ennþá himinháir auk þess sem dregið hefur úr aðgengi að lánsfé. Kannski heldur fólk að sér höndum rétt á meðan vaxtastigið þokast niður úr þessum hæstu gildum. Svo gæti eftirspurnin tekið við sér og verðið hækkað. Hlutdeildarlánin sem nú á aftur að úthluta gætu líka ýtt upp verðinu,“ segir Hildur og bætir við að til lengri tíma velti verðþróunin auðvitað ekki síst á því hversu hratt tekst að byggja nýjar íbúðir og hvort þær verði af þeim stærðum og gerðum sem helst er þörf á.
Í greiningunni kemur fram að raunverð íbúða sé nú 5,7% hærra en á sama tíma í fyrra og hafi lækkað örlítið á allra síðustu mánuðum eftir að hægja tók á hækkun íbúðaverðs. Raunverð fæst með því að taka tillit til verðbólgu.
Hildur segir að raunverð lækki þannig á milli ára ef árshækkun íbúðaverðs er minni en árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis.
„Í mars í fyrra tók raunverð að lækka og lækkunin varð mest 6% á ársgrundvelli í júlí í fyrra. Raunverð tók svo aftur við sér þegar verðbólga fór að hjaðna á sama tíma og lifnaði yfir íbúðamarkaðinum,“ segir Hildur.