Í uppgjöri Alvotech kom fram að rannsóknar- og þróunarkostnaður lækkaði á milli ára hjá félaginu. Þar dró meðal annars úr fjölda starfsmanna við rannsóknir og þróun. Í tilkynningu frá Alvotech vegna uppgjörsins kom fram að tvöföldun framlegðarhlutfalls af vörusölu megi rekja til bættrar nýtingar og vaxandi afkasta í lyfjaframleiðslunni í Vatnsmýri.
„Við erum engu að síður að fjölga starfsmönnum því umsvifin eru að aukast. Við gerum ráð fyrir að þurfa að ráða um 200 manns á næstu 12 mánuðum. Skilvirkni og framleiðslugeta aðstöðunnar er að aukast gríðarlega, við erum að stækka framleiðslulotur og getum aukið magn í framleiðslunni töluvert í framtíðinni án þess að þurfa að auka við fjölda starfsfólks í sama hlutfalli,“ segir Róbert Wessman í samtali við ViðskiptaMoggann.
Róbert segir að hann búist við að framlegðin af vörusölunni muni halda áfram að aukast bæði á síðasta fjórðungi ársins og á næsta ári.
„Það er þannig að við höfum byggt upp í Vatnsmýrinni magnaða aðstöðu og erum búin að fjárfesta í getu til að framleiða öll þau 11 lyf sem eru í þróun hjá okkur í dag. Afköstin hér eru því umtalsverð og það sem er að gerast með aukinni framleiðslu er að við erum að ná betri nýtingu á tækjum og tólum og mannskap líka. Þá erum við sífellt að vinna í því að einfalda kerfi og ferla. Á síðustu tveimur árum höfum við farið úr því að vera þróunarfélag yfir í að vera framleiðandi á stórum skala sem er að selja lyf inn á ansi marga markaði í dag,“ segir Róbert.
Aðlöguð EBITDA-framlegð á fyrstu níu mánuðum ársins var 87 milljónir dala, en hún var neikvæð um 225 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Aðlöguð EBITDA-framlegð á þriðja fjórðungi var 23 milljónir dala.
Í uppgjöri kemur fram að þeir þættir sem leiðrétt er fyrir séu meðal annars einskiptikostnaður í rannsóknum og þróun, annar einskiptikostnaður í stjórnun eða vegna kostnaðar við vörusölu og virðisrýrnunar á birgðum, auk reiknaðra liða í fjármagnstekjum og fjármagnskostnaði sem ekki hafa áhrif á sjóðsstreymi, auk gengismunar og reiknaðs tekjuskatts.
Nú leiðréttið þið EBITDA fyrir þó nokkrum þáttum og fram kemur í uppgjörinu ykkar að stjórnin ákvarði hvaða þáttum er leiðrétt fyrir. Hvernig metið þið þá þætti?
Róbert segir að langstærstu liðirnir sem leiðrétt er fyrir séu undir fjármagnstekjum og -kostnaði, sem hafi engin áhrif á sjóðstreymi félagsins, það er svonefndar gangvirðisbreytingar á afleiðutengdum skuldum.
„Þar sem við skráðum okkur á markað í Bandaríkjunum í gegnum sérhæft yfirtökufélag og gáfum út hlutabréf sem bundin eru ákveðnum skilyrðum um þróun hlutabréfaverðs félagsins og eru því einskonar afleiður, þá er þetta flækjustig til staðar. Við leiðréttum því aðallega fyrir þessum reiknuðu þáttum í fjármagnstekjum og fjármagnskostnaði sem hreyfast með hlutabréfaverði félagsins. Þessar reiknuðu gjald- eða tekjufærslur munu halda áfram að hafa áhrif á uppgjörið þar til hlutabréfaverð félagsins fer í 20 dollara á hlut en hverfa þá,“ segir Róbert.
Þann 7. júní sl. gerði félagið samning um nýja lánsfjármögnun að fjárhæð 965 milljónir dala, sem gerir félaginu kleift að lækka fjármagnskostnað, endurfjármagna skuldir með gjalddaga á árinu 2025 og bæta lausafjárstöðu sína. Lánið er með gjalddaga í júlí 2029 og var greitt út í júlí sl. Við fjármögnunina var félaginu skylt að gera upp eldri skuldir. Handhafar meirihluta breytilegra skuldabréfa nýttu rétt til þess að breyta höfuðstól og áföllnum vöxtum í hluti á genginu 10 dalir á hlut, þann 1. júlí sl. Félagið gjaldfærði tap að fjárhæð 69 milljónir dala á fyrstu níu mánuðum ársins vegna endurfjármögnunarinnar en sú fjárhæð samsvarar um 95 milljörðum íslenskra króna, sem að mestu má rekja til uppgjörs breytanlegu skuldabréfanna fyrir lokagjalddaga.
Spurður hvaða þýðingu þetta hafi fyrir félagið segir Róbert að um sé að ræða jákvæð skilaboð.
„Við erum nú búin að endurfjármagna félagið að fullu og taka út öll breytanleg skuldabréf. Með því að gera þau upp ári fyrir síðasta gjalddaga koma fram ákveðin bókhaldsleg áhrif, sem höfðu engin áhrif á handbært fé eða sjóðsstreymi,“ segir Róbert og bætir við að bókfært tap af uppgjöri breytanlegu skuldabréfanna sé aðeins reiknuð stærð.
„Þeir greinendur sem fylgjast með félaginu átta sig á því að þetta bókfærða tap hefur ekki áhrif á undirliggjandi hagnað eða sjóðstreymi félagsins. Þetta er reiknuð einskiptisstærð sem skiptir ekki máli fyrir fjárfesta sem horfa á rekstur og horfur félagsins,“ segir Róbert.
Þið ætlið ekki að uppfæra afkomuspá (e. revenue guidance) ykkar fyrir 2024, sem er 400-500 milljónir dollara sem þið kynntuð í vor, að svo stöddu. Ætlið þið að endurskoða markmiðin til hækkunar þegar þið birtið ársuppgjör eftir áramótin?
„Við höfum líka sagt að við stefnum á 600-800 milljónir dollara í tekjur á næsta ári. Við gerum ráð fyrir að gefa út nýja afkomuspá fyrir næsta ár þegar við kynnum uppgjörið fyrir árið 2024,“ segir Róbert.
Spurður hvað sé á döfinni hjá félaginu segir Róbert að félagið hafi fjölmarga spennandi samninga í pípunum og að félagið stefni á frekari markaðssókn. Þrjú ný lyf séu nú í skráningarferli og því verði fjöldi lyfja á markaði kominn í fimm í lok næsta árs.
Viðtalið má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.