Tekjur af vörusölu hjá Alvotech á fyrstu níu mánuðum ársins meira en fjórfölduðust frá sama tímabili í fyrra í 128 milljónir dala, en þar af voru tekjur á þriðja ársfjórðungi 62 milljónir dala.
Róbert Wessman forstjóri og stjórnarformaður Alvotech segir í samtali við ViðskiptaMoggann að það sem helst skýri það séu tekjur af sölu hliðstæðunnar við Humira í Bandaríkjunum og hliðstæðunnar við Stelara í Evrópu, Kanada og Japan. Tekjur af sölu Humira-frumlyfsins hafi verið um 20 milljarðar dollara áður en hliðstæðulyfin komu á markað og tekjur af sölu Stelara hafi verið um 11 milljarðar dollara á árinu 2023, en Alvotech var fyrst til að markaðssetja hliðstæðu þess lyfs í maí á þessu ári.
„Salan af þessum tveimur hliðstæðulyfjum hefur gengið mjög vel og tölurnar hafa komið mjög vel út fyrir okkur. Við erum að bjóða lyfin á talsvert lægra verði heldur en frumlyfin og það hefur skilað sér í sölu,“ segir Róbert og bætir við að töluverður hluti sjúklinga sem hafi ekki efni á að nýta sér frumlyfin geti nú notað hliðstæðurnar í dag.
„Þetta er mikil aukning á tekjum milli ára, en í takt við það sem við bjuggumst við þegar við fórum í þessa vegferð að byggja upp Alvotech,“ segir Róbert.
Spurður um núverandi markaðshlutdeild og hvaða skref félagið hyggist taka til að ná markmiðum sínum segir Róbert að hann búist við því að hliðstæður fyrir Humira muni fyrir árslok verða komnar með um 30% hlutdeild af heildarmarkaði fyrir Humira-lyfið í Bandaríkjunum. Hann segir að Alvotech sé með í kringum þriðjung af allri hliðstæðusölu í Bandaríkjunum fyrir Humira. Hann segir að þetta megi lesa úr upplýsingum frá söluaðilum sem eru í viðskiptum við Alvotech, sem ekki séu gefnar upp til gagnaveita en hafi komið fram nýlega á uppgjörsfundum.
Nú eru tryggingakerfin Medicare og Medicaid í Bandaríkjunum að gera frumlyfin ódýrari samanborið við hliðstæðulyfin sem þið framleiðið. Hvaða áhrif hefur það á ykkar samkeppnisstöðu og verð á ykkar lyfjum?
„Þessar breytingar í Medicare og Medicaid hafa engin áhrif á okkar sölu. Líkt og gefur að skilja er alltaf mun hagkvæmara fyrir sjúklinga að kaupa hliðstæðulyfin. Alvotech er með saminga við tryggingafyrirtækið Cigna og eina af stærstu apótekskeðjunum í Bandaríkjunum, Accredo. Samkvæmt ákvörðun Cigna þurfa sjúklingar sem eru tryggðir af þeim ekki að borga neitt úr eigin vasa fyrir Humira-hliðstæðulyf Alvotech. Vilji þeir aftur á móti fá frumlyfið sem framleitt er af Abbvie, samkeppnisaðila Alvotech, þurfa þeir að borga umtalsverðar fjárhæðir úr eigin vasa sem geta orðið upp undir hálf milljón króna á ári. Við metum það sem svo að með þessum hvata til að kaupa hliðstæðu okkar og hárri markaðshlutdeild Cigna á tryggingamarkaði í Bandaríkjunum getum við náð 25% markaðshlutdeild í Bandaríkjunum,“ segir Róbert.
Spurður hvaða lyf hafi verið kostnaðarsamast í þróun segir Róbert að Alvotech sé búið að eyða töluverðum fjárhæðum bæði í að byggja upp aðstöðu til framleiðslu og lyfjaþróunar en heildarfjárfestingin standi í um 1,9 miljörðum dollara.
„Við gerum ráð fyrir að eyða um 150 til 200 milljónum dollara í þróun á hverju lyfi, þó við höfum ekki gefið út nákvæmlega hvað þróun hvers lyfs hefur kostað. Það er þó ekkert launungarmál að dýrasta lyfið í þróun var hliðstæðan við Humira því við gerðum sérstakar klínískar rannsóknir á því lyfi fyrir Bandaríkjamarkað, til að fá markaðsleyfi með útskiptileika við Humira í háum styrkleika,“ segir Róbert.
Viðtalið birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.