Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri og annar eigenda Kemi segist alltaf vera að líta í kringum sig eftir tækifærum til að stækka áfram með ytri vexti. Félagið keypti Poulsen fyrir tveimur árum.
„Já, við erum alltaf að líta í kringum okkur. Við teljum að það séu tækifæri til að stækka enn frekar hvort sem er í bílgreininni eða iðnaðarvörum. Við seljum mikið af smur- og efnavöru í iðnað. Öll helstu iðnaðarfyrirtæki landsins eru kúnnar hjá okkur. Við seljum til dæmis allskonar smur- og rekstrarvörur, pappír, hanska, verkfæri og allskonar vörur sem ekki allir vita að við séum með. Við erum til dæmis stórir í mengunarvörnum, uppsogsmottum, pulsum og möl til að koma í veg fyrir mengunarslys. Þetta tilheyrir efnavörudeildinni. Maður þarf líka að selja björgunartækin ef óhapp verður.“
Hermann segir aðspurður að lokum að markmiðið með frekari stækkun félagsins sé að gera það að hagkvæmari kosti fyrir viðskiptavini. „Við erum heldur of litlir í dag en stefnan er að efla okkur og styrkja á næstu 3-4 árum til að við getum bætt enn þjónustuna og vöruúrvalið,“ segir Hermann Guðmundsson að endingu.