Armbandsúr af dýrustu og fínustu gerð eru merkilegur vöruflokkur og gaman fyrir hagfræðinga að spreyta sig á að skilja úrahagkerfið. Stóru markaðsrannsóknafyrirtækin gefa meira að segja út skýrslur um verðþróun notaðra úra og finna má vefsíður sem safna saman markaðsupplýsingum og birta vísitölur sem sýna hvort markaðurinn sé á leiðinni upp eða niður.
Eflaust vita margir lesendur að nýlega blés mikil bóla út á úramarkaðinum og náði hámarki vorið 2022, en síðan þá hefur verð notaðra lúxusúra nærri helmingast. Eru skiptar skoðanir um hvort markaðurinn fyrir notuð úr hafi náð botni en ef eitthvað er má greina merki um töluverða kólnun á úramarkaðinum í heild sinni og virðast biðlistar eftir nýjum úrum vera að styttast.
Greinendur eru almennt sammála um að rekja megi upphaf úrabólunnar til ársins 2017 þegar Rolex Daytona-armbandsúr úr safni stórleikarans Paul Newman fór á uppboð. Það rataði í fréttir um allan heim þegar úrið seldist fyrir metverð, 17,8 milljónir dala, og fór þá að fjölga í hópi þeirra sem sáu að ef til vill gæti það verið arðbær fjárfesting að kaupa gott armbandsúr.
Kórónuveirufaraldurinn hafði líka sín áhrif, m.a. vegna þess að þegar fólk gat ekki lengur eytt peningum í ferðalög og fína veitingastaði leituðu margir í lúxusvarning í staðinn. Bandarískur almenningur fékk líka peningastyrk beint frá ríkinu og leitaði það fjármagn út á rafmyntamarkaðinn og blés upp bólu þar, og virðast margir hafa notað nýfenginn hagnað af rafmyntabraski til að kaupa sér gott úr.
Þegar hér er komið sögu verður að minna lesendur á að úraframleiðendurnir gæta þess að framboð hágæða armbandsúra anni ekki eftirspurn. Er ekkert sem heitir að skella seðlabúnti á búðarborðið og ganga út með nokkurra milljóna draumaúr: fólk þarf í staðinn að skrá sig á biðlista og getur biðin tekið nokkur ár. Í sumum tilvikum er meira að segja ekki hverjum sem er hleypt á biðlistana og eftirsóttustu úrin tekin frá fyrir þá sem eru með góða viðskiptasögu og vel tengdir. Þeir sem vilja eignast draumaúrið án tafar eiga því yfirleitt ekki um aðra kosti að velja en að kaupa notað úr, og ef eftirspurnin er nógu mikil geta notuðu úrin kostað margfalt á við þau nýju.
Loftið fór að lokum úr úrabólunni. Rafmyntabólan sprakk og dró úramarkaðinn með sér í fallinu, auk þess sem drungi og depurð lagðist yfir alþjóðahagkerfið – og þá Kína alveg sérstaklega – og dempaði áhuga fólks á að spreða í nokkurra milljóna króna armbandsúr.
Fyrr í mánuðinum átti ég erindi til Bangkok og kíkti þar á útibú Vacheron Constantin. Yfirleitt eru þessar búðir með örfá úr til sýnis en í þetta skiptið var næstum því allt til og fékk ég t.d. að máta hið fágæta og rándýra „222“-gullúr, og einnig voru nokkrar útgáfur af Overseas-sportúrinu til sölu þá og þegar og enginn á biðlista. Sölumaðurinn staðfesti grun minn um að biðlistarnir hefðu verið að styttast að undanförnu og ræddum við hvort styttri bið gæti mögulega búið til nýtt vandamál fyrir framleiðendur; hluti af virði sumra úra liggur nefnilega í biðinni og þeirri tilfinningu að tilheyra útvöldum hópi heppinna kaupenda. Fyrir suma skiptir það líka máli að því lengri sem biðin er, því meiri eru líkurnar á að úrið haldi virði sínu og hækki jafnvel í verði. Með öðrum orðum: því styttri sem biðlistinn er, því færri vilja kaupa og því meiri er hættan á að markaðurinn geti lent í vítahring.
Þrátt fyrir að lægð sé yfir markaðinum hafa framleiðendur frumsýnt nokkur sérlega áhugaverð úr á undanförnum vikum og mánuðum.
Þar ber fyrst að nefna Cubitus frá Patek Philippe en skiptar skoðanir eru um hversu vel hönnun þessarar nýju línu hefur heppnast. Nautilus-úrið frá Patek er draumaúr margra og endursöluverðið eftir því: Þunnt, sígilt og fjölhæft sportúr sem kom fyrst á markaðinn árið 1976. Cubitus er á margan hátt svipað í útliti – ólin er t.d. alveg sú sama – en skífan ferhyrnd og fyrir vikið virkar úrið ögn stærra á úlnliðnum, en ég hef mátað bæði úrin.
Sjálfum þykir mér Nautilus fallegra úr en það breytir því ekki að langur biðlisti er eftir Cubitus. Til að byrja með býður Patek upp á þrjár útfærslur: stál, stál með rósagulli, og platínu með blárri ól. Kostar ódýrasta gerðin rúmlega 41.000 dali og er verðið allt að fjórfalt hærra á notaða markaðinum.
Hins vegar er samhljómur um það hjá úraspekúlöntum að nýjasta viðbótin við Omega-fjölskylduna, „First Omega in Space“ Speedmaster, haki við öll réttu boxin. Um er að ræða endurútgáfu á úri frá árinu 1959 sem geimfarinn Walter Schirra notaði í leiðangri til tunglsins árið 1962.
Hlutföll úrsins þykja eins og best verður á kosið og alls kyns vel heppnuð smáatriði hafa hæft úranörda heimsins í hjartastað. Ég mátaði úrið í Tókýó og þar var mér sagt að kaupendur þyrftu að fara á biðlista, en í Bangkok var úrið fáanlegt án biðar og kostar um 7.900 dali.
Loks er „Pogue“-útgáfa af Prospex Speedtimer frá Seiko; stálúr með gyllta skífu og utan um hana bláa og rauða rönd. Saga Pogue-úranna nær aftur til ársins 1969 en nafnið fengu þau frá öðrum bandarískum geimfara, William Pogue, sem stalst til að fara með sitt eigið Seiko-úr út í geim. Um er að ræða kvartsúr með sólarsellu og dugar hleðslan í sex mánuði. Fékk ég þær upplýsingar hjá Michelsen að eitt eintak hefði borist til landsins en selst á augabragði, og hafa viðtökurnar verið svo góðar að Seiko hefur þurft að skammta þetta litríka og skemmtilega úr til verslana um allan heim. Eru fleiri Pogue-úr væntanleg og til Íslands og verða seld á 132.000 kr.
Greinin birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum 23. nóvember í vikulega lífstílsdálkinum Hið ljúfa líf.