Kári S. Friðriksson hagfræðingur í Arion greiningu segir að almennt séð séu heimilin vel í stakk búin til að takast á við hátt raunvaxtastig. Þau hafi lagt áherslu á sparnað, auður þeirra hafi aukist og tekjur séu góðar.
Þetta segir hann í viðskiptahluta Dagmála sem sýndur var í síðustu viku en hann var gestur ásamt Unu Jónsdóttur aðalhagfræðing Landsbankans.
„Þau eru almennt séð vel í stakk búin en það er ekki aðeins hægt að horfa á meðaltölin,” segir Kári.
Mörg heimili séu að glíma við þá áskorun að föstu vextirnir af húsnæðislánum þeirra sem tekin voru fyrir þremur árum séu að losna.
„Heimilin geta því horft upp á það að greiðsluyrðin tvöfaldist. Mörg af þeim heimilum hafa þó valið að halda sér í óverðtryggðum vöxtum þannig mörg hver virðast ráða vel við þessa áskorun. Staðan er þó erfið fyrir marga,” segir Kári.