Myllan-Ora kaupir Gunnars

Höfuðstöðvar Gunnars eru í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Gunnars eru í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Myllan-Ora ehf., sem rekur matvælaframleiðslu undir vörumerkjum Myllunnar og Ora, hefur gengið frá kaupum á Gunnars ehf., framleiðanda Gunnars majónes. 

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Myllunni-Ora.

Gunnars var stofnað árið 1960 og hefur sérhæft sig í framleiðslu á majónesi og sósum, bæði fyrir neytendamarkað og matvælaframleiðendur. Auk hefðbundins majónes framleiðir fyrirtækið meðal annars létt- og veganmajónes og ýmsar sósur eins og kokteilsósu, hamborgarasósu, pítusósu og remúlaði.

Myllan var stofnuð árið 1959 og framleiðir og markaðssetur brauð, kökur og skyldar vörur. Ora var stofnað árið 1952 og framleiðir niðursuðuvörur eins og grænar baunir, rauðkál, fiskibollur og fiskbúðing auk annarra vörutegunda eins og síld og súpur.

Þekktasta vara Gunnars hefur verið hið hefðbundna majónes.
Þekktasta vara Gunnars hefur verið hið hefðbundna majónes.

Myllan-Ora ehf. hét áður ÍSAM ehf, en félagið á og rekur matvöruframleiðslu undir merkjum Myllunnar, Kexsmiðjunnar, Fróns og Ora. Var félaginu skipt upp fyrir þremur árum og er ÍSAM (heildsala) nú hluti af Ó. Johnsson & Kaaber - ÍSAM ehf.

Í tilkynningunni er haft eftir Kristjáni Theodórssyni, forstjóra Myllunnar-Ora, að tækifæri felist í kaupunum. Gunnars sé rótgróið vörumerki sem muni breikka vöruframboð samstæðu Myllunnar-Ora. „Umhverfi íslenskrar matvælaframleiðslu er krefjandi en með þessum kaupum getum við styrkt rekstur Myllunnar-Ora og þannig treyst mikilvægan grundvöll innlendrar matvælaframleiðslu,“ er haft eftir honum.

Seljandi er Kleópatra K. Stefánsdóttir, en í tilkynningunni þakkar Sævar Þór Jónsson lögmaður fyrir hennar hönd starfsfólki fyrirtækisins fyrir stuðning og traust í gegnum árin.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka