Samræming hönnunargagna

Við verklegar framkvæmdir vakna iðulega álitamál er lúta að ábyrgð …
Við verklegar framkvæmdir vakna iðulega álitamál er lúta að ábyrgð á hönnun, ósamræmi í hönnunargögnum o.fl. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Ingvar Magnússon lögmaður á Landslögum lögfræðistofu skrifar:

Við verklegar framkvæmdir vakna iðulega álitamál er lúta að ábyrgð á hönnun, ósamræmi í hönnunargögnum o.fl. Getur þetta verið algengt þrætuefni þegar ábyrgð á hönnun hefur með einhverjum hætti verið skipt milli verkkaupa og verktaka. Með grein þessari er ætlunin að veita yfirlit yfir þær reglur sem gilda um ábyrgð á samræmingu hönnunargagna.

Í eldri skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var að finna reglur um svokallaðan samræmingarhönnuð. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laganna var sá hönnuður er áritaði aðaluppdrætti samræmingarhönnuður framkvæmda og bar samkvæmt reglu sömu málsgreinar ábyrgð gagnvart byggingaryfirvöldum á því að séruppdrættir, sem lagðir væru fram til samþykktar, væru í samræmi innbyrðis og í samræmi við aðaluppdrætti. Á þessu varð breyting þegar sett voru ný lög um mannvirki nr. 160/2010 sem leystu að hluta til eldri skipulags- og byggingarlög af hendi en samkvæmt 5. mgr. 23. gr. mannvirkjalaga skal eigandi mannvirkis tilnefna hönnunarstjóra sem skal hafa yfirumsjón með og bera ábyrgð á því að samræming hönnunargagna fari fram.

Af ákvæði 5. mgr. 23. gr. laga um mannvirki hefði mátt álykta að hönnunarstjóri samkvæmt lögunum tæki að öllu leyti við hlutverki samræmingarhönnuðar samkvæmt eldri skipulags- og byggingalögum. Svo er á hinn bóginn ekki þar sem í 3. mgr. 23. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 var að finna nýmæli þar sem fram kemur að hönnuður séruppdráttar beri ábyrgð á því að hönnun hans samræmist aðaluppdrætti. Var ábyrgðarskiptingunni með þessu því breytt og ábyrgð á að séruppdrættir væru í samræmi við aðaluppdrætti færð frá aðalhönnuði til hönnuða séruppdrátta. Hafi verið einhver vafi um þetta þá var sá vafi tekinn af þegar felldur var brott 3. málsliður 4. mgr. 23. gr. mannvirkjalaga sem kveðið hafði á um að hönnunastjóri skyldi árita séruppdrætti til staðfestingar á að samræming hefði farið fram. Í greinargerð með frumvarpi til breytingarlaga nr. 134/2020 sem kváðu á um þessa breytingu á mannvirkjalögum kom enda fram að það þjónaði ekki tilgangi að hönnunarstjóri áritaði alla séruppdrætti enda bæru viðkomandi hönnuðir séruppdrátta sjálfir ábyrgð á þeim hönnunargögnum sem þeir legðu fram sem og að þeir væru samræmdir við aðaluppdrátt. Hönnunarstjóri bæri ábyrgð á því að samræmingin færi fram og legði fram yfirlit um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða sem og yfirlit um innra eftirlit því til staðfestingar.

Í 4. hluta byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna sambærilegar reglur um ábyrgðarskiptingu hönnuða en í grein 4.1.1 er kveðið á um að hönnuður séruppdrátta beri ábyrgð á því að hönnun hans sé í samræmi við aðaluppdrætti. Samkvæmt 5. mgr. greinar 4.1.2 kallar hönnunarstjóri svo aðra hönnuði mannvirkis saman til samræmingar hönnunargagna. Þá kemur fram í 6. mgr. sömu greinar að ef breyting verður á hönnunargögnum eftir að samræming hefur farið fram beri viðkomandi hönnuði að tilkynna hönnunarstjóra um breytinguna og óska eftir samræmingu hönnunargagna eftir því sem við á.

Af framangreindu má því vera ljóst að hver og einn hönnuður ber ábyrgð á sinni hönnun og að hlutverk hönnunarstjóra er að sjá til þess að samræming mismunandi hönnunarþátta fari fram. Samræmingin fer fram með fundum hönnuða sem almennt eru haldnir á verktíma sem og með gæðakerfum þar sem hönnuðir staðfesta að gæðakröfum hönnunar þeirra sé fullnægt og að skilfletir tæknikerfa við aðaluppdrætti séu í lagi. Hönnuðir séruppdrátta árita svo uppdrætti sína þessu til staðfestingar. Það er því ekki einn aðili, eins og áður var, sem ber ábyrgð á innbyrðis samræmi hönnunargagna en telja verður eðlilegt að ábyrgðinni sé dreift með þessum hætti enda flækjustig hönnunar mannvirkja sífellt að aukast.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka