Þurfi að horfa til lengri tíma

Fjárfestingar Dagfin Norum er fjárfestingastjóri (fixed income) hjá norska eignastýringarfyrirtækinu …
Fjárfestingar Dagfin Norum er fjárfestingastjóri (fixed income) hjá norska eignastýringarfyrirtækinu Storebrand. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskir lífeyrissjóðir renna hýru auga til sérhæfðra fjárfestinga, ekki síst í sambandi við innviði, en vægi þeirra hefur verið minna hér á landi en víða annars staðar. Íslenskir lífeyrissjóðir eru árum á eftir þeim norsku hvað vægi slíkra fjárfestinga varðar.

Sérhæfðar fjárfestingar hafa reynst stærsta eignastýringarfyrirtæki Noregs, Storebrand, afar vel á undanförnum árum. Dagfin Norum, fjárfestingastjóri hjá Storebrand, lýsir því hvernig vægi sérhæfðra fjárfestinga hefur aukist hjá Storebrand á síðasta áratugnum.

„Upphaflega einskorðuðust sérhæfðar fjárfestingar okkar við fasteignafjárfestingar, sem nær allir fjárfesta í, en undir lok tíunda áratugarins bættust framtaksfjárfestingar (e. private equity) við. Frá árinu 2014 höfum við fjárfest í sérhæfðum lánum (e. private credit) og árið 2021 hófum við fjárfestingar í innviðum,“ segir Dagfin.

Hann segir framtaksfjárfestingar mikilvægar stofnanafjárfestum til áhættudreifingar í alþjóðlegu fjárfestingarumhverfi.

„Framtaksfjárfestingar voru um 4% af MSCI world listed-markaðnum árið 2010, en samkvæmt nýjustu upplýsingum, þ.e. árið 2022, er vægi þeirra orðið 9%. Stærstu ráðgjafarfyrirtæki heims, á borð við Bain, McKinsey og Boston Consulting Group, vænta þess að vægi þeirra haldi áfram að vaxa. Stofnanafjárfestar geta því tæpast litið fram hjá framtaksfjárfestingum eða öðrum sérhæfðum fjárfestingum við eignadreifingu í alþjóðlegu fjárfestingaumhverfi, ekki síst vegna þess að á milli 85 og 95 prósent fyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu eru óskráð,“ segir Dagfin.

Þróunin hafi sömuleiðis verið á þá leið að fyrirtæki séu óskráð lengur en áður fyrr.

„Það þýðir líka að þau eru oftast orðin stærri við skráningu. Fjárfestir sem ekki tekur þátt í framtaksfjárfestingum missir því af fyrsta fasa verðmætasköpunarinnar og fyrir vikið verður ávöxtun hans ekki jafn skilvirk og hún gæti verið, og það er þetta sem við reynum að fanga með þessum fjárfestingum,“ segir hann.

Regluverk skiptir máli

Dagfin áréttar þó að að ýmsu sé að huga varðandi regluverk og seljanleika slíkra fjárfestinga.

„Þetta eru langtímafjárfestingar og fjárfestirinn þarf að sjá fyrir sér hvernig eignasafnið lítur út eftir þrjú, fimm eða tíu ár, vegna þess að það tekur tíma að byggja þennan hluta eignasafnsins upp. Í dag eru margir fjárfestar yfirvigtaðir í framtaksfjárfestingum miðað við langtímastefnu og þá er ef til vill eðlilegt viðbragð að hætta að fjárfesta í þeim flokki. En ef fjárfestir hættir því í tvö eða þrjú ár, þá þremur eða fjórum árum síðar er hann orðinn undirvigtaður. Sökum þessa þarf fjármagnseigandinn að vera vel upplýstur um eðli framtaksfjárfestingar.“

Hann segir það hafa komið sér á óvart í samtölum við lífeyrisfjárfesta hversu mikla áherslu þeir leggja á að 10-20 ára fjárfestingatímabil þessara sjóða sé of langt.

„Þeir eru að fjárfesta með fjármunum sem hafa 30 til 50 ára fjárfestingatíma. Hvernig geta 20 ár verið of langur tími? Að mínu mati flækjast tilfinningar oft fyrir þegar verið er að fjárfesta til svo langs tíma og ekki síst í illseljanlegum fjárfestingarkostum,“ segir Dagfin.

Storebrand hefur vegnað vel síðastliðin 10 ár með auknu vægi sérhæfðra fjárfestinga og en fyrirtækið rekur árangur sinn, sem hefur verið betri en meðal keppinauta, meðal annars til vægis þeirra.

„Sérhæfðar fjárfestingar hafa þjónað okkur vel. Ég tel þó að það sé mikilvægt að vera meðvitaður um að þú hefur eignasafn og sérhæfðar fjárfestingar eru hluti af því safni. Þegar þú byggir þann hluta eignasafnsins þarftu að velta því fyrir þér hvert vægi framtaksfjárfestinga á að vera, sem og innviðafjárfestinga og sérhæfðra lána, auk fasteigna. Það er áhættuprófíllinn. Ef þú einblínir á að hámarka ávöxtun, þá verður vægi framtaksfjárfestinga mjög hátt. En ef þú vilt byggja stöðugt og dreift eignasafn, þá verða framtaksfjárfestingarnar aðaldrifkrafturinn á bak við ávöxtun en innviðafjárfestingar auka á ávöxtun auk þess að dreifa áhættu, jafnvel þótt fasteigna- og innviðafjárfestingar hafi marga samnefnara. Flestir hafa mestan áhuga á framtaksfjárfestingum vegna ávöxtunarinnar,“ segir hann.

Erlendar fjárfestingar

Innviðafjárfestingar Storebrand eru að mestu erlendar að sögn Dagfins.

„Við lítum það sömu augum og framtaksfjárfestingarnar. Við dreifum þeim á alþjóðamörkuðum, en við viljum gjarnan halla okkur aðeins að Norðurlöndunum. Flestar fjárfestingar okkar eru í Norður-Ameríku og Evrópu, en við erum á sama tíma með yfirvigt á Norðurlöndunum. Norðurlöndin eru þó hlutfallslega lítill markaður þegar kemur að innviðaverkefnum og það sem við sjáum núna, og er ástæða þess að ég er svo hrifinn af innviðafjárfestingum, er að hvort tveggja græni sáttmálinn í Evrópu og IRA-löggjöfin í Bandaríkjunum – sem felur í sér að örva fjárfestingu í innviðum og draga verulega úr loftslagsáhrifum Bandaríkjanna – krefjast mikilla innviðafjárfestinga. Það þýðir að það er fjöldi verkefna á leiðinni á markaðinn sem munu skapa frábær fjárfestingatækifæri í framtíðinni. Við viljum að sjálfsögðu taka þátt í þeim og það fyrst og fremst af fjárhagslegum ástæðum,“ segir Dagfin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka