Markmið að vera fjárfestingarhæft

Forsvarsmenn allra tíu sprotafyrirtækja sem taka þátt í Startup SuperNova …
Forsvarsmenn allra tíu sprotafyrirtækja sem taka þátt í Startup SuperNova 2024. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Ratsjá sem greinir leka og efni í fasteignum og hugbúnaður sem jafnar leikinn hjá börnum og unglingum eru meðal þeirra lausna sem taka þátt í viðskiptahraðli Klaks, Startup SuperNova 2024.

Tíu sprotafyrirtæki hafa verið valin til að taka þátt í hraðlinum, sem er samstarfsverkefni Nova, Klak-Startups og Huawei með stuðningi frá Grósku hugmyndahúsi.

Markmið hraðalsins er að hraða framgangi sprotafyrirtækisins og að það sé fjárfestingarhæft þegar hraðli lýkur.

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir forstjóri Klaks segir að hraðallinn leitist við að byggja upp viðskiptalausnir sem hægt sé að skala á alþjóðamarkaði.

„Þetta er sá hraðall hjá okkur sem er einna áhugaverðastur fyrir vísissjóði til að mynda. Við leggjum mikla áherslu í hraðlinum á að kynna fjárfestum sprotafyrirtækin og hjálpa þeim við undirbúning að því að sækja fjármagn hjá fjárfestum. Í gegnum tíðina hafa mörg fyrirtæki komið með hugbúnaðar- og tæknilausnir sem geta auðveldlega skalað hratt á alþjóðamarkaði,“ segir Ásta í samtali við Morgunblaðið.

Jafnar leik barna og unglinga

Sprotafyrirtækið FairGame hefur þróað hugbúnað sem hámarkar upplifun barna og unglinga af íþróttamótum. Jóhannes Ólafur Jóhannesson, annar stofnenda, segir að hugmyndin hafi kviknað vegna þess að hann og meðstofnandinn, Jón Levy Guðmundsson, séu báðir íþróttapabbar.

„Þetta er klassísk saga sem margir foreldrar kannast við. Jón Levy var staddur með unga dóttur sína á löngu íþróttamóti sem stóð í fjóra daga. Fyrstu daga mótsins tapaði lið dótturinnar fyrir öðrum liðum, mjög stórt, sem getur dregið úr upplifun. Það er svo ekki fyrr en í lok móts að hennar lið fær að keppa við önnur sem voru í svipuðum styrkleikaflokki,“ útskýrir Jóhannes.

Hann segir að FairGame-hugbúnaðurinn muni gera mótshöldurum kleift að skipuleggja íþróttamót, í hvaða íþrótt sem er, með það fyrir augum að hvert lið spili við önnur af svipaðri getu.

„Styrkleikar og sérstaða FairGame liggja helst í mótaskipulagi fyrir íþróttamót barna og unglinga. Lausnin getur gert þá vinnu töluvert auðveldari fyrir skipuleggjendur. Dagskráin uppfærist líka í rauntíma. Ef einhverjar óvæntar breytingar verða til að mynda á mótaskipulaginu fá foreldrar, vinir og vandamenn strax vitneskju í FairGame-appinu um breytingarnar. Einnig tekur appið tillit til þess hvaða styrkleikaflokki einstök lið tilheyra og eru liðin þá pöruð saman samkvæmt því, sem jafnar svo leikinn og jafnframt hámarkar um leið upplifun barna og unglinga af íþróttamótum,“ útskýrir Jóhannes.

Ratsjá sem nemur efni og leka

Morgane Priet-Mahéo straumfræðingur og Eysteinn Már Sigurðsson rafmagnsverkfræðingur eru á bak við sprotafyrirtækið Jarðargreiningu, sem að sögn Morgane sérhæfir sig í þróun á svokallaðri jarðratsjá (e. Ground Penetrating Radar-GPR). Það er mælitæki sem getur greint efni, lagnir og holrými undir jarðveginum.

„Við höfum þróað mælitæki sem er sérstaklega hannað fyrir byggingariðnaðinn. Við vitum að ýmis verktakafyrirtæki og byggingaraðilar hafa áhuga á að fá að vita hvað nákvæmlega leynist undir húsum, götum og alls konar veitu- og lagnakerfum. Lausnin felst í því að tækið er notað til að skanna hvaða yfirborð sem er og gefur svo upplýsingar um hvað er undir því, án þess að þurfa að opna eða raska yfirborðinu,“ útskýrir Eysteinn.

Aðspurð segir Morgane að tækið muni geta mælt og gefið upplýsingar um öll þau efni sem geta leynst undir yfirborðinu.

„Jarðratsjáin verður ekki einskorðuð við málma eins og málmleitartæki, heldur mun hún greina plast, steina og í raun öll þau efni sem gætu verið undir yfirborðinu,“ segir Morgane.

Eysteinn segir að tækið muni einnig geta mælt raka í húsum án þess að fara þurfi í stórar framkvæmdir.

„Til dæmis ef einhver er að spá í að kaupa sér nýtt húsnæði þá er iðulega ástandið bara kannað með sjónskoðun, sem gefur ekki sérstaklega glögga mynd af raunverulegu ástandi eignarinnar. Það sem við munum bjóða er að kortleggja fasteignir í þrívídd, það er allt efni, lagnir og mögulega raka sem gæti verið undir yfirborðinu,“ útskýrir Morgane.

Eysteinn bætir við að tækið skanni einnig gólf og veiti upplýsingar um hvort lagnir leki eða raki hafi myndast í kringum þær. „Það verður því hægt að kortleggja allar lagnir undir gólfinu og finna uppruna lekans án þess að rífa öll gólf upp,“ segir Eysteinn að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK