Skel hlaut hin árlegu M&A Awards í Belgíu fyrir kaupin á Inno-verslunarkeðjunni ásamt sænska samstarfsfyrirtækinu Ahlens. Verðlaunin eru í flokki meðalstórra viðskipta í Belgíu á árinu 2024. Í umsögn dómnefndar segir að viðskiptin hafi verið flókin og haghafar margir auk þess sem uppfylla þurfti margvísleg lagaleg skilyrði.
Viðskiptin marka nýtt upphaf í sögu þessarar þekktustu verslunarkeðju í Belgíu segir jafnframt í umsögn dómnefndar sem undirstriki alþjóðlegt eðli verslunarviðskipta. Enn fremur segir að framtíð verslunarkeðjunnar sé trygg í höndum reyndra fjárfesta á smásölumarkaði.
Lárus Árnason, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Skel, segir að viðurkenningin hafi komið þeim skemmtilega á óvart. Aðaláherslan eftir að viðskiptin gengu í gegn hafi verið að hlúa að rekstrinum og byrja að innleiða nýjungar eins og að útvíkka vöruframboðið í verslunum og straumlínulaga reksturinn.
Hann segir að við birtingu á ársuppgjöri Skeljar fyrir 2023 í febrúar hafi félagið tilkynnt að stefna þess væri að auka vægi erlendrar fjárfestingar í allt að 30% af eignum.
„Okkar hlutverk er að þróa tækifæri með langtímaverðmætasköpun að leiðarljósi og við sjáum mikil fjárfestingartækifæri í Evrópu fyrir Skel. Við höfum frá stofnun lagt mikla áherslu á að vinna með góðum samstarfsaðilum í þeim verkefnum sem við tökum þátt í. Það er alltaf gaman að vinna verðlaun og fyrst og fremst er það viðurkenning fyrir alla þá sem koma að verkefninu,“ segir Lárus.
Á bak við Skel og Axcent eru frumkvöðlarnir Ayad Al-Saffar og Jón Ásgeir Jóhannesson sem báðir hafa mikla reynslu af rekstri og fjárfestingum á smásölu- og neytendamarkaði.
Lárus segir að það sem réð úrslitum í söluferlinu hafi verið framtíðarsýn Skel og Axcent.
„Miklar sviptingar hafa verið í rekstrarumhverfi verslananna í Evrópu undanfarin ár. Skel ásamt samstarfsaðila okkar Axcent of Scandinavia var boðið að taka þátt söluferli á INNO ásamt fleiri fagfjárfestum. Seljandi var þýska ríkið, sem eignaðist félagið eftir gjaldþrot móðurfélagsins Galeria Karstadt Kaufhof,“ segir Lárus.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.