Verðbólguspá næstu mánaða hefur hækkað

Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greiningardeild Landsbankans spáir nú nokkuð hægari hjöðnun verðbólgunnar en hún hafði áður gert ráð fyrir. Gangi spáin eftir verður verðbólgan 4,6% í árslok í stað 4,3% í síðustu spá og mun verða 4% í febrúar í stað 3,5% samkvæmt síðustu spá.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fréttabréfi deildarinnar fyrir desember sem kom út í dag.

„Við eigum von á að ársverðbólga verði 4,6% í desember, 4,5% í janúar og 4,0% í febrúar. Spáin er nokkuð hærri en síðasta spá sem við birtum í verðkönnunarvikunni, en þá spáðum við 4,3% í desember, 4,1% í janúar og 3,5% í febrúar,” segir í spánni.

Segir greiningardeildin að þessi munur milli spáa skýrist af tvennu. Fyrst sé það vegna nýjustu mælingar Hagstofunnar, en verðbólgan í nóvember stendur nú í 4,8%, en greiningardeildin hafði gert ráð fyrir að hún myndi lækka niður í 4,5%.

Gerir ráð fyrir hækkun á reiknaðri húsaleigu

Þá gerir greiningardeildin nú ráð fyrir meiri hækkun á reiknaðri húsaleigu en áður og að verðbólgan muni því hjaðna hægar en áður hafði verið spáð. Hins vegar er tekið fram að þessi liður vísitölu neysluverðs, reiknuð húsaleiga, hafi nýlega verið endurskoðuð í því formi sem hún er í dag og því sé enn vandasamt að spá fyrir um þann lið.

Greiningardeildin bendir einnig á að óvissa á vinnumarkaði hafi smám saman minnkað, en hjúkrunarfræðingar og læknar undirrituðu kjarasamning í nóvember og kennarar frestuðu verkfalli. Með þessu séu samningar á opinberum markaði að byggja á svipuðum grunni launahækkana og á almennum markaði að því er greiningardeildir segir. „Í tilfelli hjúkrunarfræðinga fæst kjarabót ekki síst í gegnum vinnustyttingu og hækkaðar álagsgreiðslur en erfitt er að segja til um heildarumfang launahækkana áður en þróun launavísitölunnar verður ljós.”

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK