Áfram situr Frakkland í súpunni

Marine Le Pen ræðir við blaðamenn á mánudag. Þjóðfylkingin sættir …
Marine Le Pen ræðir við blaðamenn á mánudag. Þjóðfylkingin sættir sig ekki við að vera í aukahlutverki og vill fá sínu framgengt. AFP/Stephane de Sakutin

Mér hefur lengi þótt það skrítið að Frakkar skuli ekki vera frjálshyggjumenn upp til hópa. Við eigum jú frönskum spekingum og frelsishetjum að þakka margar grunnhugmyndir okkar um frelsi og réttindi einstaklingsins. Það ætti heldur ekki að vera flókið að láta frönsk skólabörn lesa skrif Frédérics Bastiats á frummálinu svo að þau fái skilið hvernig ríkisvaldið getur blásið út og orðið að óseðjandi skrímsli.

Skrítnast af öllu er að hinn dæmigerði Frakki er meiri einstaklingshyggjusinni en hjarðdýr: Frakkar hafa ofboðslega gaman af fundarhaldi en þeir bera líka mikla virðingu fyrir sjálfstæði og frumleika í hugsun; þeir þola ekki þegar meiri máttar níðast á minni máttar, og eru fullir af samúð með þeim sem eiga um sárt að binda. Gallinn er sá að Frakkinn tortryggir ekki hið opinbera heldur hefur hann óbilandi trú á getu hámenntaðra embættismanna – með gráður frá fínu frönsku háskólunum – til að finna góða lausn á öllum vandamálum samfélagsins og fínstilla gangverk atvinnulífsins.

Rót vandans er kannski þessi: Frakkanum þykir hann eiga allt gott skilið, og finnst að hinu opinbera beri hreinlega skylda til að skaffa honum það. Þess vegna er franska ríkið, og um leið franskt samfélag, í dag alveg eins og Bastiat varaði við: þar eru allir að reyna að lifa á kostnað allra hinna.

Ég fékk að taka þátt í þessum sirkus þegar ég bjó í París, hér um árið, og hef ég aldrei á ævinni þurft að greiða jafnmikið í skatta og gjöld. Ekki var nóg með að hið opinbera tæki til sín drjúgan skerf af ósköp hóflegum tekjum heldur er franska kerfið svo flókið – með ótrúlegustu glufur, sérreglur og krúsidúllur – að ég þurfti fyrst af öllu að ráða rándýran skattalögfræðing til að finna út úr því með hvaða hætti ég ætti að gera upp við ríkissjóð og almannatryggingakerfið.

Það er afskaplega gaman að skreppa til Frakklands; kíkja í búðirnar, njóta heimsins besta víns og ljúffengustu osta en enginn gerir það að gamni sínu að stofna til skattalegrar heimilisfesti í Frakklandi, og hvað þá heldur hefja þar rekstur og hafa einhver mannaforráð.

Miðað við deilurnar sem nú standa yfir á franska þinginu er ekki að sjá að ástandið muni batna í bráð.

Mjó lína á miðjunni

Kannski muna lesendur að síðasta sumar skrifaði ég pistil um mislukkað útspil Emmanuels Macrons. Eftir að hægriflokkur Marine Le Pen, Þjóðfylkingarflokkurinn (Rassemblement National, RN), vann mikinn sigur í frönsku Evrópuþingskosningunum boðaði Macron til þingkosninga í skyndi í þeirri von að reyna að veikja pólitíska stöðu Þjóðfylkingarinnar og efla miðjubandalagið sem flokkur Macrons, Endurreisn (Renaissance, RE), hafði náð að mynda í kringum sig.

Leikfléttan gekk ekki alveg upp, og hlaut Þjóðfylkingin flest atkvæði á landsvísu og hefði fengið miklu fleiri þingsæti ef Frakklandi væri ekki skipt upp í einmenningskjördæmi. Öfga-vinstriflokkurinn Nýja alþýðufylkingin (Nouveau Front Populaire, NFP), nýstofnað bandalag vinstriflokka, náði að bæta við sig þingsætum, og Þjóðfylkingin sópaði til sín sætunum en Endurreisn og vinaflokkar Macrons misstu þingmeirihlutann og hafa núna aðeins 212 sæti af 577.

Í september tókst loksins að mynda minnihlutastjórn miðju- og hægriflokka með Michel Barnier sem forsætisráðherra, en aldrei fyrr í sögu Frakklands hefur minnihlutastjórn haft jafnfá þingsæti á bak við sig.

Alþýðufylkingin og Þjóðfylkingin hafa ekki verið til friðs síðan þá og þann 9. október freistaði Alþýðufylkingin þess að fella ríkisstjórnina með vantrauststillögu. Ríkisstjórnin stóð árásina af sér af því að Þjóðfylkingin ákvað að sitja hjá og sagðist Le Pen vilja bíða og sjá hvernig stefna miðjubandalagsins myndi þróast.

Síðan þá hafa fjárlagahugmyndir ríkisstjórnar Barniers tekið að skýrast og ljóst er að þar er margt sem hvorki Alþýðufylkingin né Þjóðfylkingin geta sætt sig við, og hleypti Le Pen öllu í háaloft fyrir helgi þegar hún hótaði vantrauststillögu ef ekki yrði dregið úr fyrirhuguðum skattahækkunum og niðurskurðaraðgerðum, en Barnier hafði þá þegar reynt að koma til móts við Þjóðfylkinguna með ýmsum breytingum á fjárlagafrumvarpinu. Þegar þetta er skrifað stefnir í að franska ríkisstjórnin verði felld í atkvæðagreiðslu í dag, miðvikudag.

Hallinn langt yfir viðmiðum

Fjárlagafrumvarp Barniers var ekkert sérstaklega glannalegt en hann langaði að búa til 60 milljarða svigrúm til að reyna að koma böndum á fjárlagahallann. Reyndar er liðin um það bil hálf öld síðan franska ríkið var rekið hallalaust, en yfirleitt stækkaði hagkerfið nógu hratt til að halda hringrásinni gangandi.

Hallinn er núna með mesta móti og nálgast 6% af landsframleiðslu en Barnier vill reyna að fikrast nær 5% á næsta ári. Þarf að leita marga áratugi aftur í tímann til að finna dæmi um annan eins fjárlagahalla í Frakklandi, ef meiri háttar áfallatímabil eru undanskilin, og eru ráðamenn í Brussel ekki nógu ánægðir með stöðuna því að samkvæmt viðmiðum Evrópusambandsins mega aðildarríki helst ekki reka sig með meira en 3% halla, m.v. landsframleiðslu.

Eins og við er að búast vill Alþýðufylkingin ekki að hróflað sé við velferðarkerfinu, en Þjóðfylkingin krefst þess einnig að lífeyrisgreiðslur haldi áfram að hækka í takt við verðbólgu og vill alls ekki sjá hækkaða skatta á raforku. Báðir flokkarnir vísa til þess að þeir hafi lofað því í kosningabaráttunni að skerða ekki kaupmátt almennings.

Greinendur hafa bent á að með því að taka svona harða afstöðu, og gera svona afdráttarlausar kröfur, sé Þjóðfylkingin að minna á að flokkurinn hafi náð þeirri stærð og styrk að vera ekki lengur aukaleikari í frönskum stjórnmálum.

Barnier hefur farið þá leið í átökunum við stjórnarandstöðuflokkana að segja að ef þeir ekki samþykkja fjárlögin og fella ríkisstjórnina þá beri þeir ábyrgð á afleiðingunum. Varar Barnier við að „stór stormur“ geti skollið á og það verði við andstæðinga ríkisstjórnarinnar að sakast ef óeining og pólitísk óvissa skaðar franska hagkerfið.

Le Pen metur stöðuna væntanlega sem svo að ef hún sýni ekki hörku verði Þjóðfylkingin samsek í hugum kjósenda og glati atkvæðum þeirra sem aðhaldsaðgerðir Barniers myndu annars bitna á.

Á sama stað og Grikkland?

Markaðir eru órólegir yfir þessu ástandi, og hafa raunar verið það allt síðan niðurstöður kosninganna í sumar lágu fyrir og hefur t.d. CAC 40-hlutabréfavísitalan rýrnað um nærri 10% síðan talið var upp úr kjörkössunum. Pólitíska óvissan sést líka á því að ávöxtunarkrafa franskra ríkisskuldabréfa hefur verið á uppleið undanfarnar vikur og þótti það sérstaklega fréttnæmt á dögunum þegar lánakjör ríkissjóðs Grikklands urðu á tímabili hagstæðari en lánakjör franska ríkisins.

Er ekki þar með sagt að Frakkland sé að greiða himinháa vexti, og nýtur landið t.d. betri kjara á markaði en Ítalía, Spánn og Bretland, og hafa lánakjör Grikklands einfaldlega stórbatnað á undanförnum árum þökk sé árangursríkum aðhalds- og uppstokkunaraðgerðum þar í landi síðan evrópska skuldakreppan setti þar allt á hliðina. Frönsku ríkisskuldabréfin bera samt núna næstum 1% hærri vexti en þau þýsku, og hefur það ekki gerst síðan í skuldakreppunni þegar hvekktir fjárfestar leituðu skjóls í þýskum bréfum.

Sumir greinendur hafa miklar áhyggjur af að fjárlögin þurfi helst að vera klár fyrir 21. desember en það þýðir ekki að algjört upplausnarástand muni ríkja ef vantrauststillagan verður samþykkt – í fyrsta skipti síðan 1962 sem sitjandi ríkisstjórn væri komið frá völdum með þessum hætti. Barnier gæti t.d. beitt sérstakri heimild í stjórnarskránni til að gera fjárlagafrumvarpið að lögum án atkvæðagreiðslu á þinginu, og Macron gæti sömuleiðis gefið út neyðartilskipun og þannig haldið starfsemi ríkisins gangandi líkt og ef fjárlagafrumvarpið hefði verið samþykkt. Loks gæti starfsstjórn tekið við völdum og látið þingið samþykkja neyðarlög sem myndu framlengja fjárlög þessa árs, en það myndi þýða að aðhaldsaðgerðir Barniers yrðu að bíða.

Ekki er hægt að kjósa aftur til þings fyrr en næsta sumar því að samkvæmt stjórnarskránni þarf að líða a.m.k. ár á milli kosninga, og má reikna með að óreiða og óvissa muni ríkja í frönskum stjórnmálum þangað til. Tímasetningin er ekki heppileg enda stutt í að Trump flytji aftur í Hvíta húsið og líklegt að það verði hans fyrsta verk að hækka tolla á evrópskar vörur. Verða þá hvorki Þýskaland né Frakkland í topp standi til að svara honum af fullum krafti, enda er ríkisstjórn Olafs Scholz nýsprungin.

Hagkerfi í lágflugi

Eitt er að koma böndum á fjárlagahallann, og annað að leysa langtímavanda Frakklands.

Franska velferðarmódelið er löngu orðið ósjálfbært enda fer meðalaldur hratt hækkandi á meðan fæðingartíðnin er á niðurleið, og bótakerfið allt of rausnarlegt. Hagvöxtur hefur ekki farið yfir 5% síðan á áttunda áratugnum og frá aldamótum hefur hagvöxtur yfirleitt rokkað í kringum 1%. Reyndar glímir allt Evrópusambandið við lítinn hagvöxt en frammistaða Frakklands er undir meðallagi og ekki útlit fyrir að það breytist.

Bastiat myndi auðvitað benda á að það sé ekki skrítið að franska hagkerfið sé veikburða þegar skattar eru háir og alls konar skyldur og kvaðir lagðar á fyrirtæki. Ég get sjálfur vottað það sem stundum er sagt um Frakkland í hálfgerðu gríni; að sá sem ætlar að stofna þar fyrirtæki þurfi að byrja á að ráða lögfræðing og endurskoðanda og geti þá fyrst reynt að skapa einhver verðmæti. Er ekki nema von að nýsköpun og hagsæld sé eftir því.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK