Samkeppnishindranir fæla fjárfesta frá

Eyþór Kristleifsson forstjóri Skræðu, sem sérhæfir sig í heilbrigðislausnum, og Gunnar Zoëga, forstjóri OK og formaður samtaka fyrirtækja í upplýsingatækniþjónustu (SUT), eru gestir Dagmála í dag. Í þættinum er rætt um samkeppnishindranir á markaði um heilbrigðislausnir.

Tilefnið er ærið, en Samkeppniseftirlitið hefur hafið rannsókn á hvort embætti landlæknis hafi beitt aðgangshindrunum, eins og Morgunblaðið hefur fjallað um.

Málið varðar milljarðasamninga við eitt fyrirtæki, Helix (áður Origo), um þjónustu og uppsetningu sjúkraskrárkerfa, ásamt margvíslegum hugbúnaði innan heilbrigðiskerfisins. Þá hefur Kærunefnd útboðsmála (Knú) stöðvað útboð Fjársýslu ríkisins, fyrir hönd Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), á myndgreiningarþjónustu þar sem verulegar líkur voru taldar á að útboðið bryti í bága við lög um opinber innkaup. Áður hafði Knú lagt sekt á SÍ vegna samnings um myndgreiningarþjónustu sem var að mati nefndarinnar útboðsskyldur.

Þá verður aldrei neitt úr hugmyndunum

Eyþór segir samkeppnishindranir á markaðnum til mikils trafala.

„Nýsköpun kemur yfirleitt úr ákveðnum jarðvegi sem snýst um áhættufjárfestingar. Frumkvöðlar sem eru með hugmyndir koma sínum hugmyndum á framfæri við fjárfesta og fjárfestar gera kröfu um arðbærni og það verður að vera forsenda fyrir því að geta skilað til baka því sem þú leggur fé í,“ segir Eyþór.

„Þegar fjárfestar sjá landslag þar sem það er einfaldlega einokun, þá dettur engum í hug að setja peninga í nokkurn skapaðan hlut, þannig að það skiptir engu máli hversu margar góða hugmyndir þú kemur með, það verður aldrei neitt úr þeim.“

Mörg dæmi

Gunnar segir mörg dæmi þess að ekki séu einfaldar leiðir fyrir fyrirtæki að koma inn á markað.

„Hvort sem það er í beinni þjónustu í hugbúnaðarþróun eða vörum í upplýsingatækni, við sjáum það alveg. En á sama tíma er verið að reyna að gera þetta á öðrum stöðum nokkuð vel þannig að þetta er svona beggja blands, ég ætla ekki að segja að það sé heilt yfir allt í einhverju volli. Við höfum gott dæmi eins og Stafrænt Ísland. Þar var farin mun betri leið,“ segir Gunnar.

Báðir eru þeir sammála um að breytinga sé þörf og það vanti heildstæða stefnumótun til þess að opna markaðinn. Boltinn sé hjá stjórnmála- og embættismönnum.

Gunnar Zoëga formaður SUT og Eyþór Kristleifsson forstjóri Skræðu.
Gunnar Zoëga formaður SUT og Eyþór Kristleifsson forstjóri Skræðu. mbl.is/Kristófer Liljar
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK