Róbert Róbertsson, fjármálastjóri laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur, segir að fyrirtækið stefni að því að ná kostnaðarhlutfalli sambærilegu því sem gerist best hjá keppinautum. Stór mínus sem íslensk fyrirtæki glíma við, ólíkt flestum öðrum þjóðum, eru ýmsir aukaskattar á greinina.
„Það að greiða mun hærri skatta á lax en aðrar þjóðir og aðrar vörur seldar frá landinu er einkennileg stefna yfirvalda. Það að við séum að greiða hærri skatta en önnur fyrirtæki á Íslandi og okkar keppinautar á markaði er einkennilegt, virkar ekki hvetjandi og skaðar samkeppnisstöðu okkar,“ segir Róbert.
„Laxeldi á Íslandi hefur ekki fengið neina styrki eða meðgjöf í uppbyggingu. Þvert á móti hafa verið lögð há leyfisgjöld og framleiðslugjöld og allir vilja sinn bita. Við erum að mæta á markað með okkar vöru í samkeppni við aðila sem hafa engin gjöld og mun minni flutningskostnað og styttri afthendingartíma,“ segir Róbert.
Í dag greiðir Kaldvík yfir 4% af tekjum félagsins í beina skatta, þ.e. án tillits til hvort félagið er að fjárfesta eða skila hagnaði.
Róbert segir að réttast væri að gefa greininni tíma til að byggja upp starfsemina, fjárfesta í búnaði og tækjum og þá með tímanum muni félagið greiða skatta eins og önnur arðbær fyrirtæki.
Hann segir jafnframt að spyrja þurfi hinn almenna borgara hvert viðhorf hans sé til laxeldis.
„Umræðan gegn greininni hefur verið ansi óvægin og oft og tíðum einkennst af fullyrðingum sem eiga ekki við rök að styðjast. Eins og gefur að skilja þarf oft að leiðrétta rangfærslur þar sem þekking á laxeldi er ekki mikil. Þekkingarskortur á einhverju gerir það að verkum að auðvelt er að setja út á og fullyrða eitthvað sem fólk veit ekki um. Til dæmis að þetta mengi firðina, það er einfaldlega ekki satt, við gerum mælingar á botni sjávar og greinum ástand fyrir, á meðan og eftir hverja eldislotu.“
Viðtalið birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.