Sjúkratryggingar hunsuðu Fjársýsluna

Sjúkratryggingum Íslands gengur brösuglega að semja um myndgreiningarþjónustu með löglegum …
Sjúkratryggingum Íslands gengur brösuglega að semja um myndgreiningarþjónustu með löglegum hætti.

Fjársýsla ríkisins gerði verulegar athugasemdir við útboðsgögn Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) vegna útboðs á myndgreiningarþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands brugðust ekki við athugasemdum Fjársýslunnar nema að afar takmörku leyti.

Kærunefnd útboðsmála (Knú) stöðvaði nýverið útboðið eftir kæru segulómunarfyrirtækisins Intuens, vegna þess að verulegar líkur hefðu verið leiddar að því að brotið hefði verið gegn lögum um opinber innkaup við útboðið.

Í svarbréfi Fjársýslunnar við beiðni Samkeppniseftirlitsins um gögn og upplýsingar vegna útboðsins kemur fram að Fjársýslan vilji vekja sérstaka athygli á þeirri stöðu sem kom upp við gerð útboðsgagna í útboðinu. Ráðleggingum og athugasemdum Fjársýslunnar hafi ekki verið sinnt nema að litlu leyti. „Raunar svo litlu leyti að starfsmaður Fjársýslunnar sá sig knúinn til að senda Sjúkratryggingum tölvupóst til að árétta að margt af því sem kæmi fram í útboðinu væri gegn ráðleggingum Fjársýslunnar,“ segir í bréfinu.

Þá er vitnað í tölvupóst starfsmannsins frá 24. september, en þar segir m.a.:

„Útboðið er í öllum megindráttum eins og þegar það kom inn á borð FJS. Aðeins voru gerðar breytingar á uppsetningu og á fáeinum smærri atriðum. Líkt og fram hefur komið í fyrri samskiptum er um að ræða nokkuð sérstakt útboð sem fellur illa að hefðbundnu útboði. Valmódelið er til dæmis ekki í takt við ráðleggingar FJS, ýmis vandkvæði geta komið upp varðandi röðun bjóðenda í ljósi þess að þriðji aðili sér um að vísa sjúklingum á tiltekna birgja óháð niðurstöðu útboðsins, kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir og fleira.“

Í kæru vegna útboðsins heldur Intuens því fram að útboðið hafi verið klæðskerasniðið að ákveðnum bjóðanda, en SÍ réðst í útboðið í kjölfar þess að Knú sektaði SÍ um 40 milljónir króna vegna samnings um myndgreiningarþjónustu sem gerður var án undangengins útboðs sem lög gera ráð fyrir. Intuens var jafnframt kærandi í því máli.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK