Sjókvíaeldi sem atvinnugrein hefur ekki verið laus við gagnrýni en það sem helst hefur sætt gagnrýni er umhverfisáhætta vegna slysasleppinga og laxalúsar. Þá hefur erlent eignarhald á laxeldisfyrirtækjunum einnig verið gagnrýnt.
Róbert Róbertsson fjármálastjóri Kaldvíkur segir í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans að í ár hafi engar grunsemdir verið tilkynntar um veiði á eldislaxi í ám landsins.
„Við höfum lagt allt kapp á að hafa laxana okkar í kvíum okkar. Það þarf öflugan búnað og virkt eftirlit til að passa upp á að allt sé eins og það á að vera. Búnaðurinn okkar er hannaður að grunni eftir ströngum stöðlum sem tryggir það að öryggið er mikið. Öll atvik eru skráð og ef það þarf að uppfæra og laga þá er það gert eftir stöðlum og fyrirframákveðnum ferlum til að tryggja að búnaður sé 100%,“ segir Róbert og bætir við að ekki hafi orðið vart við laxalús og því þurfi ekki að meðhöndla laxinn eftir að hann kemur í kvíarnar. Laxinn sé því í algjörum friði frá fyrsta degi sem minnkar stress og tryggir gæði.
„Við höfum verið farsæl í þeim efnum. Það er mjög kostnaðarsamt að aflúsa og síðan eru slysasleppingarnar slæmar fyrir orðspor greinarinnar,“ segi Róbert.
Kaldvík er með háþróaðan búnað í eftirliti með sjókvíunum og segir Róbert að það sé vegna þess búnaðar helst sem slysasleppingartilvik hafi ekki komið upp. Félagið er til að mynda með vélmenni sem fylgjast reglulega með því hvort göt hafi myndast á kvíunum. Þá hefur félagið innleitt gervigreindarbúnað sem tekur fjölda ljósmynda til að fylgjast með ástandi og líðan laxanna.
Róbert segir að þessi aukna áhersla á gæði og öryggi í framleiðslunni hafi tryggt fyrirtækinu vottun frá bandarísku verslanakeðjunni Whole Foods. Sú vottun er verulega eftirsótt innan geirans en Kaldvík er eins og staðan er í dag eina laxeldisfyrirtækið með þá vottun.
„Sú vottun hefur hjálpað verulega sölunni okkar á Bandaríkjamarkað sem er einn helsti markaður okkar,“ segir Róbert.
Hann segir að lax fyrirtækisins sé sá allra besti og það sé ekki síst vegna þess að vel sé hugsað um hann.
„Frá hrogni er hann meðhöndlaður þannig að honum líði vel og vaxi og dafni allt fram að því að hann sé tilbúinn á diskinn. Okkar lax er með meira ómega-3 en annar lax, hann er með dýpri lit og fær eingöngu náttúrulegt fóður. Þessi einstaka vara er eftirsótt og tryggir okkur ánægða viðskiptavini um allan heim. Í dag er lax að fara frá okkur til dæmis inn á hágæða veitingastaði um allan heim. Við verðum aldrei stór hluti af heimsmarkaði, innan við 1%, en við getum verið þekktir fyrir besta laxinn og það er okkar markmið,“ segir Róbert.
Viðtalið birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.