Ef skattar og skyldur íslenskra banka væru eins og annars staðar á Norðurlöndunum myndi það skapa svigrúm í rekstrinum sem ætti t.d. að duga til að lækka vexti um 0,96 til 1,15 prósentustig. Heiðrún Emilía Jónsdóttir hjá SFF segir um að ræða þætti sem Alþingi og Seðlabankinn stjórna og lúta m.a. að sérsköttum, bindiskyldu og eiginfjárkröfum.
Fyrir heimili með 50 milljóna króna fasteignalán myndi 1% lækkun vaxta jafngilda því að vaxtagreiðslur minnkuðu um u.þ.b. hálfa milljón króna á ári.
Á fundi SFF og SA kom fram að opinber umræða um íslensku bankana hefur áhrif á þá einkunn sem alþjóðlegu matsfyrirtækin gefa þeim. Óvarleg umræða getur því stuðlað að verri vaxtakjörum fyrir bankana.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.