Umræða um bankana hefur áhrif á lánshæfið

Óvarkár og óvönduð umræða um bankakerfið - sérstaklega ef kjörnir …
Óvarkár og óvönduð umræða um bankakerfið - sérstaklega ef kjörnir fulltrúar eiga í hlut - gæti skaðað fjármögnunarkjör íslensku bankanna. Morgunblaðið/Eyþór Árnason

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Heiðrún Emilía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, að með því að létta af fjármálakerfinu alls kyns séríslenskum álögum og skilyrðum gæti myndast svigrúm til að lækka útlánavexti bankanna á bilinu 0,96-1,15% prósentustig.

Þetta kom fram í skýrslu sem Gunnar Haraldsson, hagfræðingur hjá Intellecon, kynnti á fundi sem Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Samtök atvinnulífsins héldu í nóvember en þar var skoðað hvaða leiðir gætu verið færar til að lækka vexti á Íslandi.

„Þetta er kallað Íslandsálagið í daglegu tali, og áætlar Intellecon að ef þessum íþyngjandi og heimatilbúnu þáttum væri breytt til samræmis við það sem við sjáum á hinum Norðurlöndunum þá myndi það veita bönkunum svigrúm sem myndi t.d. nægja til að lækka vexti um 0,96 til 1,15 prósentustig. Þetta eru annars vegar atriði sem Alþingi tekur ákvörðun um, s.s. skattar, og hins vegar þættir sem Seðlabankinn stýrir, þ.e. bindiskylda og eiginfjárkröfur."

Heiðrún undirstrikar að taka verði tölum Intellecon með ákveðnum fyrirvara, og að bankarnir myndu væntanlega bregðast við með ýmsum hætti ef Íslandsálaginu yrði létt af fjármálageiranum: „Það væri undir hverjum og einum þeirra komið en þetta viðbótarsvigrúm mætti t.d. nota til að fjárfesta í nýrri tækni til að auka skilvirkni, eða nýta til að bæta þjónustu við viðskiptavini, greiða út hærri arð ellegar bjóða viðskiptavinum betri vaxtakjör.“

Umræðan skaðar lánshæfismatið

Þá vekur Heiðrún sérstaka athygli á að í einu af erindum fundarins í nóvember var vitnað í skýrslu matsfyrirtækisins Moodys þar sem stóð svart á hvítu að opinber umræða um íslensku bankana væri metin sem sérstakur áhættuþáttur í lánshæfismati þeirra. „Óvarleg umræða getur því haft bein áhrif á lánshæfismatið sem aftur leiðir til verri vaxtakjara fyrir bankana.“

Heiðrún segir sjálfsagt og æskilegt að stjórnmálamenn, álitsgjafar og almenningur viðri skoðanir sínar á fjármálageiranum og bönkunum og að hafðar séu nánar gætur á því hvernig greinin starfar. „Fjármálakerfið er sannarlega ekki hafið yfir gagnrýni. En það hefur loðað við umræðuna að hún getur verið óvægin og óvarkár. Er það reyndar alveg skiljanlegt ef pirringur almennings beinist að bönkunum enda er það á greiðsluseðlum bankanna sem fólk sér t.d. áhrif hærri stýrivaxta koma fram. Mættu ekki síst kjörnir fulltrúar stundum vanda sig ögn betur því vanhugsuð og yfirspennt ummæli þeirra hafa í för með sér orðsporsáhættu sem gæti valdið bönkunum og viðskiptavinum þeirra viðbótarkostnaði að óþörfu, t.d. þegar það hefur áhrif á einkunn matsfyrirtækja eins og kom fram hjá Moodys. Við þurfum öll að vanda okkur í orðfæri og störfum okkar, alla daga og alltaf.“

Þessi grein er hluti af lengra viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK