Hæstiréttur hafnaði í morgun að veita Frigus II áfrýjunarleyfi í máli félagsins gegn íslenska ríkinu og Lindarhvoli.
Frigus II krafðist skaðabóta upp á 651 milljón króna vegna sölu á hlut ríkisins í Klakka ehf. árið 2016.
Áður höfðu bæði héraðsdómur og Landsréttur sýknað íslenska ríkið og Lindarhvol af bóta kröfum Frigusar II.
Félagið, sem er í eigu Sigurðar Valtýssonar og Ágústs og Lýðs Guðmundssonar sem kenndir eru við Bakkavör, taldi að verulegir annmarkar hefðu verið á söluferlinu sem leiddu til skaðabótaskyldu íslenska ríkisins og Lindarhvols.
Hæstiréttur taldi að úrslit málsins hefðu ekki verulegt almennt gildi og ekki heldur að þau vörðuðu sérstaklega mikilvæga hagsmuni í skilningi laga.
Þá var heldur ekki talið að málsmeðferð á fyrri dómstigum hefði verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, hefði verið bersýnilega rangur að formi og efni til.
Alls bárust Lindarhvoli þrjú tilboð í eignarhlut ríkisins í Klakka ehf., frá Ásaflöt, BLM fjárfestingum og Kviku, fyrir hönd Frigusar.
Lindarhvoll ákvað að taka tilboði BLM fjárfestinga upp á 505 milljónir króna.