Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi var gestur í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna.
Spurður hvort hann telji að bjartari tímar séu fram undan í íslensku efnahagslífi segist hann vona það en þó fari það mikið eftir vendingum í pólitíkinni.
„Það er óvissa hvað varðar ríkisfjármálin en ef við lítum fram hjá því virðast hlutir vera að stefna í rétta átt,“ segir Björn Berg og vísar til þess að raunvextir séu háir og verðbólgan að hjaðna. Frekari vaxtalækkanir séu því líklega í nánd.
„Ef ætlunin er að halda raunvaxtastiginu svipuðu þá ætti að vera innistæða fyrir vaxtalækkunum áfram sem mun gera allt bærilegra,“ segir hann en útilokar þó ekki að það geti orðið bakslag.
„Fyrir nokkru síðan var flokkur sem ætlaði í ríkisstjórn sem hugðist auka fé í millifærslukerfin geysilega mikið og þá rauk upp verðbólguálagið á markaði. Það er ekki nóg að segjast vilja ná verðbólgu og vöxtum niður. Aðalspurningin er hvað maður er tilbúinn að greiða fyrir það til að svo verði,“ segir Björn Berg.
Hann segir að við höfum upplifað tíma þar sem vextir og verðbólga voru í lágmarki og notið þess.
„Því vona ég að þeir sem ráða sýni ábyrgð, hvort sem það eru þeir sem eru við kjarasamningsborðið eða ný ríkisstjórn. Því það er til mikils að vinna að komast á þennan stað. Ef fólk er tilbúið til þess þá er ekkert nema sumar og sól fram undan því aðstæðurnar í íslensku efnahagslífi eru góðar,“ segir Björn Berg að lokum.