Skipurit fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar tók breytingum í byrjun nóvember. Þá voru tveir nýir stjórnendur ráðnir inn í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Kristjana Thors Brynjólfsdóttir var síðan á dögunum ráðin til þess að stýra nýju sviði hjá Sýn sem ber heitið Miðlar og efnisveitur. Undir sviðið heyrir innlend og erlend dagskrárgerð, íþróttadeild, rekstur fréttastofu, útvarps og hlaðvarpa.
Kristjana hefur áratugareynslu af fjölmiðlageiranum á Norðurlöndunum. Hún hefur starfað hjá Warner Bros. Discovery og Viaplay Group. Þar hefur hún m.a. sérhæft sig í stefnumótun, efniskaupum og markaðssetningu, auk stjórnunar stafrænna umbreytingarverkefna.
Spurð hver sé helsti munurinn á fjölmiðlarisunum Viaplay og Warner Bros. Discovery annars vegar og Sýn hins vegar segir hún að það sé stærðin ásamt því að skalanleikinn sé mun meiri erlendis. Hún bendir á að það kosti jafn mikið að framleiða sjónvarpsefni sem 100 manns horfa á og 1.000.000 manns horfir á.
„Við þurfum því að nýta sniðugar lausnir í fjölmiðlarekstri á Íslandi til að reksturinn standi undir sér,“ segir Kristjana.
Hún bætir við að annars staðar á Norðurlöndunum sé meiri áhersla lögð á gagnadrifnar ákvarðanir.
„Fjölmiðlar á Norðurlöndunum nýta gögnin til að ná árangri og ég vil innleiða þá hugsun hér hjá Sýn. Við erum að gera það að hluta en getum gert betur. Mikil samvinna er á milli deildanna úti, sem leiðir til betri ákvörðunartöku. Við þurfum að vinna betur saman,“ segir Kristjana.
Hún segir að tækifæri séu fólgin í því að blanda saman línulegri og ólínulegri dagskrá. Þó að efni sé framleitt fyrir ólínulega notkun geti verið árangursríkt að setja það í línulega dagskrá til að ná til fleiri.
„Þetta fer þó að sjálfsögðu eftir efninu sjálfu og eitt gildir ekki yfir allt. Þegar ég starfaði hjá Viaplay var þetta eitt af því sem við unnum að alla daga. Ég vil nýta þá reynslu til að efla Sýn á þessu sviði,“ segir Kristjana.
Greinin birtist í heild í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.