Stafræna markaðsstofan Ceedr hefur þróað nýjan hugbúnað, Ceedr Index, sem mælir vörumerkjavitund.
„Búnaðurinn er notaður til að skilja betur vörumerkjavitund og sýnir viðskiptavinum okkar hvar þeir standa í samanburði við keppinauta sína og hvernig þurfi að bregðast við,“ segir Hreggviður Steinar Magnússon framkvæmdastjóri Ceedr í samtali við ViðskiptaMoggann
Hreggviður segir að forritið mæli það sem fólki er efst í huga. „Við skoðum hvernig fólk leitar á Google-leitarvélinni. Ef þú spyrðir mig hvort vörumerkið væri sterkara, Blue Lagoon eða Sky Lagoon, afmarkað við Ísland og leitir á ensku, þá get ég upplýst með hjálp búnaðarins að Sky Lagoon hefur vinninginn. Fólk er töluvert meira að leita að því baðlóni á netinu.“
Hann segir að hægt sé að búa til greiningu með einum músarsmelli. „Við erum búin að sjálfvirknivæða ákveðna rannsóknar- og greiningarvinnu. Það sem áður tók marga klukkutíma tekur nú eina mínútu.“
Tólið verður aðgengilegt öllum á vef Ceedr innan tíðar.
Um helstu tískufyrirbæri á markaðnum segir Hreggviður að gervigreindin sé nú yfir og allt um kring og sé að verða öflugri en mannshöndin. „Hún er að ná ævintýralegum árangri. Fyrir kannski tveimur árum voru stillingarnar á auglýsingatólum samfélagsmiðla miklu fleiri, þ.e. til að sérsníða skilaboð að ákveðnum hópum á ákveðnu landsvæði. Nú hefur algrímið tekið yfir og lærir fljótt á þarfirnar.“
Um helstu miðla segir Hreggviður að TikTok sé orðið kjölfestumiðill hjá 18-38 ára fólki, þó að Google og miðlar Meta, Facebook, Instagram og WhatsApp, séu langstærstu miðlarnir.
Einnig nefnir Hreggviður Microsoft-miðla eins og LinkedIn og Bing sem hafi verið að sækja mikið í sig veðrið á fyrirtækjamarkaði bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.
Spurður um helstu trend á markaðinum segir Hreggviður að færsla á fjármunum milli miðla hafi verið í gangi mörg undanfarin ár. „Við finnum fyrir því á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Fé er að færast meira yfir á stafræna miðla sem á endanum þýðir aukna eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækja eins og Ceedr. Þetta er þó líka að einhverju leyti hættuleg þróun fyrir fjölmiðla í hverju landi. Svona þróun getur orðið til þess að draga úr getu fjölmiðla til að sækja sér tekjur og sinna sínu mikilvæga hlutverki.“
Hreggviður segir að á meðan aðrar hefðbundnar stofur á Norðurlöndum hafi þurft að pakka saman og loka vegna erfiðra markaðsaðstæðna í kjölfar covid og þungrar stöðu í orkumálum, þá sé Ceedr í sókn. „Það var lán í óláni að fjöldi heimsklassasérfræðinga var að leita sér að vinnu. Við gátum ráðið hæfasta fólkið,“ segir Hreggviður.
Fréttin hefur verið uppfærð.