Veitingastaðurinn Blackbox Pizzeria er á leið í þrot og starfsmenn munu að óbreyttu ekki fá greidd laun. Þetta kemur fram í tölvubréfi sem aðaleigandi staðarins sendi starfsmönnum og Morgunblaðið hefur undir höndum.
Það kom flatt upp á aðaleigandann og sendanda bréfsins, Karl Viggó Vigfússon, að Morgunblaðið hefði bréf hans til starfsmanna undir höndum, enda að hans sögn trúnaðarbréf. Hvergi kemur það þó fram í bréfinu sem sent var á alla starfsmenn.
Karl segir möguleika á að betur fari, þar eð tveir aðilar hafi sýnt því áhuga að taka við rekstrinum.
Fyrirvaralaus lokun á veitingastaðnum í Borgartúni í síðasta mánuði kom flatt upp á marga viðskiptavini sem höfðu bókað staðinn fyrir ýmisleg tilefni.
Auk Karls Viggós á Jón Gunnar Geirdal Ægisson hlut í félaginu í gegnum félagið LAB11 ehf. Félagið tapaði ríflega 17 milljónum á síðasta ári en árið 2022 nam hagnaður þess tæpum 12 milljónum.
Er Karl var inntur eftir ástæðum fyrir lokuninni sagðist hann ekki vera viss hvort hún væri tímabundin eða varanleg.
Í bréfinu segir Karl að Blackbox sé á leiðinni í gjaldþrot og hann geti ekki borgað laun starfsmanna. Hann segist hafa gert allt sem í hans valdi stóð til þess að halda rekstrinum áfram. Einnig hafi hann verið í samskiptum við mögulega kaupendur að rekstrinum, en ekki haft erindi sem erfiði.
Karl bendir starfsmönnum á að hafa samband við stéttarfélög sín til að fá aðstoð við að sækja launakröfur úr þrotabúinu. Þá biðst hann afsökunar og óskar starfsmönnum alls hins besta í framtíðinni.
Þetta mun vera í annað skiptið sem veitingastaður sem Karl rekur endar í gjaldþroti á þessu ári. Hann átti einnig og rak veitingastaðinn Héðin Kitchen & Bar að Seljavegi 2 í Reykjavík ásamt Elíasi Guðmundssyni, sem varð gjaldþrota í byrjun árs. Skiptum á því búi lauk í sumar og kom fram í Lögbirtingablaðinu að kröfuhafar hefðu eingöngu fengið 3,5 milljónir króna greiddar af þeim 105,5 milljóna kröfum sem lýst var í búið.