Starfsfólk Blackbox fái laun ekki greidd

Karl Viggó Vigfússon, einn eigenda veitingastaðarins Blackbox, sendi tölvubréf til …
Karl Viggó Vigfússon, einn eigenda veitingastaðarins Blackbox, sendi tölvubréf til allra starfsmanna félagsins þar sem hann staðfestir að félagið sé á leiðinni í gjaldþrot og engin laun verði greidd til starfsmanna. mbl.is/Eyþór

Veitingastaðurinn Blackbox Pizzeria er á leið í þrot og starfsmenn munu að óbreyttu ekki fá greidd laun. Þetta kemur fram í tölvubréfi sem aðaleigandi staðarins sendi starfsmönnum og Morgunblaðið hefur undir höndum.

Það kom flatt upp á aðaleigandann og sendanda bréfsins, Karl Viggó Vigfússon, að Morgunblaðið hefði bréf hans til starfsmanna undir höndum, enda að hans sögn trúnaðarbréf. Hvergi kemur það þó fram í bréfinu sem sent var á alla starfsmenn.

Karl segir möguleika á að betur fari, þar eð tveir aðilar hafi sýnt því áhuga að taka við rekstrinum.

Fyrirvaralaus lokun á veitingastaðnum í Borgartúni í síðasta mánuði kom flatt upp á marga viðskiptavini sem höfðu bókað staðinn fyrir ýmisleg tilefni.

Auk Karls Viggós á Jón Gunnar Geirdal Ægisson hlut í félaginu í gegnum félagið LAB11 ehf. Félagið tapaði ríflega 17 milljónum á síðasta ári en árið 2022 nam hagnaður þess tæpum 12 milljónum.

Er Karl var inntur eftir ástæðum fyrir lokuninni sagðist hann ekki vera viss hvort hún væri tímabundin eða varanleg.

Vísar á stéttarfélög að sækja launakröfur

Í bréfinu segir Karl að Blackbox sé á leiðinni í gjaldþrot og hann geti ekki borgað laun starfsmanna. Hann segist hafa gert allt sem í hans valdi stóð til þess að halda rekstrinum áfram. Einnig hafi hann verið í samskiptum við mögulega kaupendur að rekstrinum, en ekki haft erindi sem erfiði.

Karl bendir starfsmönnum á að hafa samband við stéttarfélög sín til að fá aðstoð við að sækja launakröfur úr þrotabúinu. Þá biðst hann afsökunar og óskar starfsmönnum alls hins besta í framtíðinni.

Þetta mun vera í annað skiptið sem veitingastaður sem Karl rekur endar í gjaldþroti á þessu ári. Hann átti einnig og rak veitingastaðinn Héðin Kitchen & Bar að Seljavegi 2 í Reykjavík ásamt Elíasi Guðmundssyni, sem varð gjaldþrota í byrjun árs. Skiptum á því búi lauk í sumar og kom fram í Lögbirtingablaðinu að kröfuhafar hefðu eingöngu fengið 3,5 milljónir króna greiddar af þeim 105,5 milljóna kröfum sem lýst var í búið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK