Svipmynd: Langt í land í jafnrétti kynjanna

Hildur segir að lögmannsstéttin eigi langt í land í jafnrétti …
Hildur segir að lögmannsstéttin eigi langt í land í jafnrétti kynjanna og veltir því upp hvort kvenkyns lögmenn fái sömu tækifæri og karlar innan greinarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmaður og einn eigenda Landslaga, segir að stór mál séu fram undan hjá sér eins og málflutningur í bótamáli vegna vatnslekans á Háskólavæðinu 2021.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Rekstur Landslaga hefur gengið vel undanfarin misseri og árið 2024 er að koma mjög vel út enda reksturinn í góðum höndum. Lögmenn eru almennt vakandi fyrir þeim tækifærum og áskorunum sem kunna að felast í notkun gervigreindar til framtíðar.

Það er áhyggjuefni að konur virðast síður endast í lögmannsstéttinni. Hlutfall kvenkyns lögmanna er rúmlega 32% og hefur nánast staðið í stað í 10 ár þrátt fyrir að fleiri konur útskrifist úr lagadeildum en karlar.

Þá er áhugavert að hlutfall kvenkyns lögmanna með réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti er um 15% og hefur sömuleiðis lítið breyst síðan 2014. Ég kann ekki skýringar á þessu en það má velta því upp hvort kvenkyns lögmenn fái sömu tækifæri. Ef til vill fá konur síður verkefni í gegnum tengslanet eða þær jafnvel gleymast við val á lögmönnum.

Ef skoðuð eru munnlega flutt mál í Hæstarétti á árinu 2023 þá voru einungis 10% lögmanna á lögmannsstofum sem fluttu þar mál konur. Dæmin eru mun fleiri. Þá sjaldan það gerist að ég flytji mál á móti kvenkyns lögmanni þá eru þær alltaf mjög vel undirbúnar og flytja málin ákaflega vel og skipulega. Á þessum tímum sem við lifum í dag er langt í land hér í jafnrétti kynjanna.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Ég reyni að lifa heilbrigðum lífsstíl, þ.e. hreyfa mig, passa upp á svefninn, huga að tengslum við vini og fjölskyldu. Ég æfi tvo morgna í viku með frábærum hóp kvenna í hverfisræktinni undir leiðsögn einkaþjálfara. Ég nýt þess að hlaupa þó ég hlaupi nánast á gönguhraða eftir síðustu meðgöngu. Á sunnudögum hleyp ég með góðri vinkonu kringum Elliðavatn og reyni svo að koma við öðru hlaupi eða göngu á Úlfarsfell í góðum félagsskap vikulega. Þetta er mjög mikilvægt fyrir mína líkamlegu og ekki síður andlegu heilsu. Þá reyni ég að passa upp á mataræðið en þar sem ég er nammifíkill þá gengur það misvel.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég brenn fyrir lögmennskunni og er kappsöm að eðlisfari, stundum jafnvel of kappsöm. Það skilar sér í kappsemi við að fá farsæla lausn fyrir þá sem til mín leita. Þá gefur það mér drifkraft hve lögfræðin er áhugaverð en jafnframt að fá tækifæri til að hjálpa umbjóðendum við að ná fram rétti sínum.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Ég hef lokið við að flytja síðustu mál þessa árs, svo við taka önnur verkefni sem þarf að ljúka við svo ég komist í jólafrí með fjölskyldunni. Eftir áramót er svo á dagskrá málflutningur í héraði og Landsrétti en einnig eru stór verkefni í gangi eins og bótamál vegna vatnslekans sem varð á Háskólasvæðinu 2021.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Síðasti fyrirlesturinn var um sjóvátryggingar sem TM tryggingar stóðu fyrir í tengslum við sjávarútvegssýninguna. Svo hef ég mætt á viðburði hjá FKA og Arion banka þar sem voru skemmtileg erindi.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Pabbi minn er mér mikil fyrirmynd í mínum störfum en hann hefur t.d. skrifað margar fræðibækur sem ég styðst við í störfum mínum.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ekki skemmtilegasta svarið en ég les dóma Landsréttar og Hæstaréttar flesta fimmtudaga eða föstudaga. Ég les svo stundum greinar í Úlfljóti eða Tímariti lögfræðinga og glugga í nýjar bækur á sviði lögfræðinnar. Þá hef ég talsvert verið að kenna og halda fyrirlestra og vil meina að það sé besta endurmenntunin, þar sem það heldur mér á tánum.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Ég er ótrúlega ánægð í mínu starfi. Starfið er svo fjölbreytt og möguleikarnir eru margir. Ég hef gaman af því að fara með hagsmunagæslu fyrir aðila og flytja mál. Ég nýt þess að reyna að ná fram réttlæti fyrir umbjóðendur mína.

En í starfi mínu hef ég einnig tekið að mér að berjast fyrir hagsmunum stórs hóps félagsmanna í Húseigendafélaginu sem formaður stjórnar félagsins.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Ég myndi breyta fjárlögum fyrir árið 2025. Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa, sem ég gegni formennsku í, fékk úthlutað fjármagn sem dugar einungis til að úrskurða rúmt hálft árið 2025. Kærunefndin hefur það lögbundna hlutverk að úrskurða í kærumálum neytenda vegna sölu á vöru eða þjónustu og ber að úrskurða innan tiltekins tíma.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK