Valkyrjustjórnin og viðskiptalífið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Inga Sæland og Kristrún Mjöll Frostadóttir, eða …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Inga Sæland og Kristrún Mjöll Frostadóttir, eða valkyrjurnar eins og þær eru gjarnan kallaðar. mbl.is/Karítas

Andrés Jónsson stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Góðra samskipta skrifar:

Aðeins sammála um 3 mál af 60“ var fyrirsögn fréttar sem byggðist á gögnum sem Viðskiptaráð sendi frá sér vegna stjórnarmyndunarviðræðnanna sem nú standa yfir. Vinur minn, sem er stuðningsmaður Viðreisnar, andvarpaði stundarhátt við lestur fréttarinnar. Þetta væri svo sem ágætis áróður hjá ráðinu en um leið allt of mikil einföldun. „Ríkisstjórnir eru ekki myndaðar út frá afstöðu til þess hvort lögleiða eigi fjárhættuspil eða ekki,“ sagði hann og var þar að vísa í að flestar spurningarnar í áttavita Viðskiptaráðs snúa að afmörkuðum kerfisbreytingum sem lengi hafa verið við lýði eða ýmiss konar afregluvæðingu sem litlir hópar kunna að hafa sterkar skoðanir á en eru ekki ofarlega á blaði hjá flestum.

En er þetta svona? Erum við að fá ríkisstjórn sem er ekki jákvæð nema gagnvart brotabroti af þeim úrbótum sem atvinnulífið kallar eftir?

Nei, ég hallast að því að vera sammála vini mínum um að svona æfingar segi okkur afar lítið um hvort ríkisstjórn valkyrjanna þriggja muni stuðla að aukinni atvinnusköpun og efnahagslegum framförum á næstu fjórum árum.

Andrés Jónsson, stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Góðra samskipta.
Andrés Jónsson, stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Góðra samskipta. mbl.is/Styrmir Kári

Atvinnulífið hefur auðvitað fjarska lítinn samanburð. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd í 29 ár af síðustu 33 árum og 41 ár af síðustu 50 árum. Engin ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks hefur setið í heilt kjörtímabil á þessum tíma nema vinstri stjórnin sem tók við eftir hrun árið 2009 og var mestmegnis í rústabjörgun. Það eru því engin dæmi í hálfa öld um hvað ríkisstjórnir án Sjálfstæðisflokks geti gert til að stuðla að blómlegu atvinnulífi hér á landi.

Þetta er veruleiki sem Kristrún Frostadóttir virðist hafa áttað sig á enda breytti hún tóni Samfylkingarinnar í garð atvinnulífsins um leið og hún tók við formennsku í flokknum. Plönin frægu sem Samfylkingin lagði fram eru þrjú: 1. Lækkum kostnað heimilanna, 2. Öflugt atvinnulíf, 3. Lögum heilbrigðiskerfið. Svo eru útfærðar hugmyndir undir hverju og einu plani. Til að mynda áform um að auka ársframleiðslu á raforku um 5 teravattstundir á næstu tíu árum, tvöföldun á fjárfestingu í samgönguinnviðum, hækkun (ásamt fyrirsjáanleika) auðlindagjalda og skýr umgjörð sem taki á ruðningsáhrifum atvinnugreina.

Hjá Samfylkingunni er öflugt atvinnulíf í 2. sæti á listanum á eftir hag heimilanna. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks væri líklega með sömu þrjú mál á oddinum en myndi svissa 1. og 2. sætinu í þeirri trú að öflugt atvinnulíf bæti sjálfkrafa hag heimilanna. Því miður hefur brauðmolakenningin (e. trickle down economics) ekki staðist tímans tönn. Ef við viljum samfélag þar sem allir eiga jöfn tækifæri þá er öflugt velferðar- og menntakerfi ekki nóg. Það dugir ekki að vera klár eða dugleg/ur ef þú stendur illa félagslega eða fjárhagslega. Þetta hafa rannsóknir þar sem fylgst er með fólki um áratugaskeið sýnt fram á. Jöfn samfélög eru það sem skapar öllum jöfn tækifæri. Þarna hafa Norðurlöndin skarað fram úr og Kristrún horfir þangað. Það þurfi öflugt atvinnulíf sem fjármagni velferðarkerfið en efnahagslegur veruleiki heimila sé þó ávallt í fyrsta sæti.

Viðreisn er líka með sömu nálgun þó að flokkurinn sé ekki jafn hrifinn af beinum skattastuðningi við heimilin og Samfylkingin. Viðreisn setti heimilin líka í fyrsta sæti í kosningunum en vill ná fram auknu aðhaldi í ríkisrekstri og nýta einkaframtakið til að gera þjónustuna hagkvæmari. Flokkur fólksins er með fókus á verr settu heimilin en þegar svör hans við spurningum Samtaka iðnaðarins eru skoðuð þá sést að flokkurinn er fremur atvinnulífssinnaður.

Atvinnulíf getur vel blómstrað þó að það þurfi að koma meira að uppbyggingu innviða samfélagsins. Skattar eru ekki það eina sem fyrirtæki horfa til þegar þau ákveða hvar þau vilja byggja upp starfsemi sína. Það eru líka hlutir eins og stöðugleiki, öryggi og velsældarumhverfi sem laðar að sér hæft starfsfólk, sem þau horfa til.

Atvinnulífið á Íslandi ætti því kannski að staldra við áður en það hendir sér í virka stjórnarandstöðu við valkyrjustjórnina. Það er ekkert víst að þetta klikki.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK