Hið ljúfa líf: Nú er það að nýju kóngsins

Tívolí er fallegt á öllum tímum ársins en í myrkrinu …
Tívolí er fallegt á öllum tímum ársins en í myrkrinu er það engu líkt. Meira að segja asíski hluti Tívolís er stórkostlegur í jólastemningunni. Ljósmynd/Unsplash

Frá því ég fæddist hefur því verið slengt fram að þessi eða hinn sé að fara til kóngsins Köbinhávn. Og mér hefur þótt það skrítið því að alla mína hunds- og kattartíð hefur Margrét Alexandrína Þórhildur Ingiríður, síðasta prinsessa Íslands, verið drottning Danmerkur og enginn kóngur á svæðinu, ekki einu sinni Hinrik maður hennar sem varð aldrei neitt annað en drottningarmaður og prins.

Lagði sig ekki

En svo gerðist það um þetta leyti í fyrra að Margréti þótti komið nóg. Ólíkt Jóni í leikriti Fagraskógarskáldsins tók hún ekki upp á því að leggja sig og deyja, heldur afsalaði hún sér krúnunni og að sjálfsögðu tók sonur hennar, Friðrik prins, við og settist í hásætið í Amalíuborg. Hann er sá tíundi í sögu Danmerkur sem er bæði kóngur og heitir Friðrik og því býður hefðin að hann sé merktur með rómverska tölustafnum X.

Þess vegna er nú rétt farið með þegar sagt er að leiðin liggi til kóngsins Kaupmannahafnar. Og á vettvangi ljúfa lífsins í ViðskiptaMogganum er rétt og skylt að nefna þá leiðarlýsingu þegar aðventan gengur í garð. Vissulega er Kaupmannahöfn dásamleg á öllum árstíðum, en í desember breytist borgin í hálfgerða draumaveröld. Fyrir því eru allnokkrar ástæður en þó ber þó ein af og væri ein og sér nægileg til þess að leggja leið sína yfir hafið.

Ástæðan er Tívolí. Það er skemmtigarðurinn heimsþekkti sem starfræktur hefur verið í borginni allt frá árinu 1843 og laðar til sín gríðarlegan fjölda fólks á hverju ári – frá öllum heimsins hornum.

Það er stórkostleg upplifun að heimsækja Tívolí í Kaupmannahöfn í …
Það er stórkostleg upplifun að heimsækja Tívolí í Kaupmannahöfn í aðdraganda jólahátíðarinnar, sérstaklega ef hann hangir þurr.

Góður ullarfatnaður er málið

Tívolí er eins og Kaupmannahöfn, dásamlegt á öllum tímum ársins en í aðdraganda jóla er það ekkert annað en magnað. Vissulega dálítið háð veðri, en sé úrkoma í lágmarki er ekkert að veðri enda svæðið sérdeilis skjólgott. Og góður ullarfatnaður, hlýir vettlingar og höfuðfat í raun allt sem þarf!

Þangað er gott að fara, kaupa sér miða sem veitir aðgang í heilan dag að öllum tækjum og svæðum fyrir litlar 8.000 kr. íslenskar. Á svæðinu er hægt að velja milli fjölmargra veitingastaða, bæði í fínni kantinum en einnig einfaldra og lítt uppskrúfaðra. Og tækin eru af fjölbreyttum toga og henta öllum aldurshópum.

Fyrir þá sem eiga erfitt með að komast í jólaskapið er þetta góður staður til þess að stilla sig inn á hátíðarnar. Og ekki skemmir fyrir að tækin, ekki síst hin kraftmestu, gera öllum sem vilja og hafa þor til kleift að ganga að nýju í barndóm – að minnsta kosti um stund. Nægir þar að nefna rússíbana, fallturn, klessubíla og rólur sem sveifla fólki í einföldum keðjum tugi metra upp í loftið.

Lífvarðasveitin

Tívolí er málið en svo er það Kaupmannahöfn að öðru leyti. Ýmislegt í borginni hefur orðið mér að yrkisefni á þessum vettvangi síðustu árin og er óþarfi að tíunda alla góðu veitingastaðina. Má ég þó til með að nefna að það er gaman að koma sér fyrir við Rósenborgarkastala kl. 11:30 og fylgja lífvarðasveit kóngsins marsera alla leið niður að Amalíuborg. Sé Friðrik á svæðinu fylgir sveitinni glæsileg lúðrasveit og á aðventunni hefur hún æft allnokkur skemmtileg jólalög sem koma nærsvæðinu öllu í jólastuð. Í tilefni hátíðarinnar er heimsókn í Vor frúarkirkju skylduheimsókn og fyrst farið er að tala um trúarbrögð, og þá ekki síst heimamanna, er stutt stopp í Legóbúðinni á Strikinu hálfgerð skylduheimsókn. Ekki er verra að hafa fengið sér jólaglögg í aðdraganda hennar. Það eykur líka eilítið á kaupgleðina.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK