Munu lægri vextir leiða til meiri neyslu?

Una Jónsdóttir forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans.
Una Jónsdóttir forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans. Ljósmynd/Aðsend

Una Jónsdóttir forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans skrifar:

Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferlið í október með 25 punkta lækkun og fylgdi því eftir með 50 punkta lækkun í nóvember. Þetta gerði bankinn rétt fyrir mestu neyslutíð ársins, með öllum sínum tilboðsdögum og jólainnkaupum.

Það er því eðlilegt að spyrja hvaða áhrif lækkanirnar hafa á neyslugleði landsmanna. Heimilin eiga nefnilega töluvert af sparnaði sem safnast hefur upp síðustu ár og miðað við það hafa mörg heimili svigrúm til að auka neysluna. Um er að ræða verulegar fjárhæðir. Nú í desember áttu heimilin alls um 1.000 milljarða króna inni á veltureikningum og óbundnum innlánsreikningum.

Hvatinn til sparnaðar eykst þegar vextir hækka, eins og sést m.a. á því að frá því að Seðlabankinn byrjaði að hækka vexti um mitt ár 2021 hefur sparnaður sem er geymdur á svona reikningum aukist um 200 milljarða króna. Þegar vextir lækka minnkar hvatinn til sparnaðar og það verður því forvitnilegt að fylgjast með áhrifum vaxtalækkana. Mun fólk halda áfram að spara eða auka neyslu sína?

Sparnaður sem safnaðist upp í heimsfaraldrinum kynti undir verðbólguskotinu

Þegar heimsfaraldurinn reið yfir jukust innlán, m.a. vegna samkomutakmarkana sem gerðu það að verkum að færri tækifæri voru til neyslu. Eftir faraldurinn jókst neysla töluvert, enda gat fólk gengið á sparnaðinn sem safnast hafði upp, með tilheyrandi þrýstingi á verðbólgu. Einkaneysla jókst um tæp 7% árið 2021 og rúmlega 8% árið 2022. Verðbólga fór úr því að vera að jafnaði 4,4% árið 2021 upp í 8,3% árið 2022.

Háir vextir hafa ýtt undir sparnað að nýju, en hvað gerist svo?

Allt árið 2023 og það sem af er 2024 hafa innlán aukist verulega. Á sama tíma hægðist mjög á vexti einkaneyslu sem jókst einungis um 0,5% í fyrra. Við í Greiningardeild Landsbankans spáum því að vöxturinn verði svipaður í ár. Minni vöxtur einkaneyslu helst í hendur við hjöðnun verðbólgunnar sem við spáum að verði 5,8% að jafnaði í ár og hafi þá hjaðnað úr 8,7% í fyrra. Orsökina fyrir þessari miklu hjöðnun verðbólgu og uppsöfnun innlána er að finna í háum stýrivöxtum, en vextir hækkuðu verulega á árunum 2021-2023. Frá maí 2023 og fram í ágúst 2024 héldust vextir óbreyttir í 9,25%.

Raunvaxtastigið enn hátt

Nú vakna spurningar um hvað verði um þessi innlán þegar vextir lækka. Gera má ráð fyrir að einkaneysla aukist aftur að einhverju leyti með tilheyrandi þrýstingi á verðlag, þróun sem peningastefnunefnd Seðlabankans mun fylgjast grannt með. Aukist einkaneysla of hratt gæti það hægt á vaxtalækkunarferlinu. Það þarf samt að hafa í huga að þó að nafnvextir lækki nú er raunvaxtastigið engu að síður nokkuð hátt og gæti hækkað enn frekar næstu mánuði. Aðhaldið er því áfram talsvert og á meðan enn er nokkur hvati til sparnaðar ætti ekki að vera ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af þrýstingi á neyslu.

Tímabært skref

Enn er alls óvíst hversu mikil áhrif þær vaxtalækkanir sem farið hefur verið í munu hafa. Þróun hagtalna frá fyrstu vaxtalækkun bendir þó til þess að þetta hafi verið tímabært skref. Verðbólga hefur áfram hjaðnað og gögn yfir kortaveltu benda ekki til verulegrar neysluaukningar. Á þessari stundu er afar erfitt að segja til um hversu hratt vextir verði lækkaðir og ræðst sú ákvörðun m.a. af þeim hagtölum sem munu berast fyrir næstu vaxtaákvörðun, m.a. um kortaveltu og sparnað.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK