Að sögn Jóns Helga Egilssonar er brýnt að skoða pólitísk viðhorf um hlutverk ríkis og einkaaðila þegar rætt er um hugmyndir Seðlabanka Evrópu (SBE) um að gefa út svokallaðan seðlabankarafeyri (e. central bank digital currency). Bendir hann á að embættismenn evrópska seðlabankans séu að þróa eigin stafrænu mynt og eigin greiðslumiðlun á meðan fulltrúadeild Bandríkjaþings samþykkti nýlega lög sem banna bandaríska seðlabankanum að gera slíkt hið sama. „Evrópa og Kína eru á allt annarri leið en Bandaríkin í þessu máli,“ segir Jón Helgi og bætir við að deila megi um hvort seðlabankarafeyri fylgi fleiri kostir en gallar. „Ef umgjörðin er ekki rétt þá dregur seðlabankarafeyrir úr eðlilegri samkeppni og hamlar nýsköpun í tækni og viðskiptum á þessum markaði.“
Jón Helgi er með doktorsgráðu í hagfræði og einnig meðstofnandi og stjórnarformaður íslenska fjártæknifélagsins Monerium. Hann birti nýlega áhugaverða grein hjá Forbes þar sem seðlabankarafmyntir voru skoðaðar frá ýmsum hliðum:
„Seðlabankarafmyntir eru í einföldu máli þjóðargjaldmiðlar á rafrænu formi þar sem mótaðilinn er seðlabanki viðkomandi þjóðar, en ekki einkabanki eða leyfisskyld greiðslumiðlunarfyrirtæki. Í dag hefur almenningur einungis aðgang að seðlabankamynt í formi klinks og seðla á meðan einkaaðilar keppast um að þjónusta almenning með rafeyri á grunni leyfa frá eftirlitsaðilum eins og seðlabönkunum. Seðlabanki Evrópu telur að hann þurfi nú einnig að bjóða almenningi rafeyri og vísar til þess að rafræn greiðslumiðlun fyrir álfuna sé að stórum hluta í höndum erlendra fyrirtækja og nú sé það öryggisatriði að fólk og fyrirtæki þurfi ekki að vera háð þessum fyrirtækjum,“ útskýrir Jón Helgi.
En væri það ekki hið besta mál að seðlabankar byðu þjóðargjaldmiðla beint til almennings á rafrænu formi og myndu þannig mögulega leyfa fólki að losna við alls kyns milliliði sem í dag draga til sín prósentu hér og prósentu þar? Jón Helgi svarar því til að það snúist um pólitískt viðhorf hvort treysta skuli samkeppni til að auka skilvirkni, leiða nýsköpun í tækni- og viðskiptum og bjóða hagkvæmustu lausnina eða hvort hið opinbera skuli leiða þessa þróun og um leið ryðja út einkaaðilum á markaði. „Þar fyrir utan er ekki hægt að segja að fólk og fyrirtæki eigi erfitt með að framkvæma rafrænar greiðslur í dag og væru seðlabankarafmyntir því ekki að leysa neinn sérstakan vanda hvað það snertir,“ segir hann. „En þetta yrði aftur á móti fráhvarf frá þeirri rótgrónu stefnu að seðlabankar láti hinum frjálsa markaði eftir að þróa og bjóða upp á þær lausnir sem snúa að almenningi og atvinnulífinu. Frekar en að skipta um stefnu og láta seðlabankana gegna miðlægu hlutverki fyrir alls konar rafræna greiðslumiðlun höfum við hingað til farið þá leið að virkja hinn frjálsa markað til að ýta tækniþróuninni áfram og knýja fram lægri kostnað og halda seðlabönkunum alfarið frá smásölumarkaðinum.“
Í ljósi þess hve mikilvægar rafrænar greiðslur eru fyrir nútímahagkerfi segir Jón Helgi það skiljanlegt að Seðlabanki Evrópu íhugi að koma sér upp eigin rafeyri og greiðslumiðlun, en á næsta ári gæti SBE kynnt til sögunnar seðlabanka-raf-evru sem almenningur í álfunni hefði beinan aðgang að. „Evrópa stendur frammi fyrir breyttri heimsmynd og hafa dæmin m.a. sýnt að rafræn greiðslumiðlunarkerfi geta verið notuð sem vopn í átökum á milli þjóða. Þannig hafa Bandaríkin t.d. nýtt sér stöðu dalsins til að setja hömlur á hverjir megi nota gjaldmiðilinn í viðskiptum sín á mili s.s. með því að loka á aðgang rússneska hagkerfisins að SWIFT-greiðslukerfinu. Varð það til þess að BRICS-ríkin setja nú aukinn kraft í að þróa eigin greiðslumiðlun þvert á landamæri.“
Jón Helgi bendir á að seðlabankarafmyntum fylgi hættur sem ekki megi líta fram hjá. „Með þeim er verið að færa aukið vald í hendur embættismanna og dæmin úr kínverska banka- og fjártæknigeiranum sýna að þetta vald er hægt að misnota, s.s. til að þrengja að þeim sem ekki eru stjórnvöldum þóknanlegir og skerða getu þeirra til að greiða rafrænt fyrir vörur og þjónustu. Í Bandaríkjunum hefur einmitt verið farin sú leið að setja það í lög að seðlabankinn megi ekki gefa út dollararafeyri án þess að fá fyrst samþykkt þingsins, m.a. vegna þess að á fjölbreyttum samkeppnismarkaði fyrir rafrænar greiðslur er frelsi einstaklingsins betur varið.“
Að mati Jóns Helga er það líka áhyggjuefni að á sama tíma og SBE leggur áherslu á útgáfu rafrænnar evru er verið að mismuna fjártæknifyrirtækjum og bönkum hvað varðar þjónustu seðlabankanna og reynt að festa hefðbundna banka í sessi sem milliliði. „Það hristi upp í evrópska bankageiranum þegar Meta tilkynnti um rafmyntaverkefnið Líbru árið 2019. Það verkefni komst aldrei í loftið en þeim tókst að vekja seðlabankana sem óttuðust að missa völd sín.“
Með raf-evru er SBE einnig að bregðast við samkeppni nýrra lausna sem byggjast á svipaðri tækni og Líbru-rafmyntin. „En með útgáfu seðlabankarafeyris er SBE kominn í þá undarlegu stöðu að keppa við leyfisskyld fjártæknifyrirtæki í rafrænni greiðslumiðlun og á sama tíma vera með dagskrárvaldið til að setja reglur um samkeppnisaðila sína. Það er þá SBE sem hefur eftirlit með samkeppnisaðilum sínum og bankanna og fær að ráða því hverjir teljast hæfir til að starfa á þessum markaði.“
Nýjar reglur í Evrópu virðast raunar hampa evrópskum bönkum sérstaklega. „Bankarnir njóta aðstöðumunar að því leyti að þeir hafa beinan aðgang að millifærslukerfum seðlabankanna og geta geymt innistæður hjá þeim. Aðrir aðilar sem bjóða upp á fjármálaþjónustu í samkeppni við banka hafa ekki þennan sama aðgang og á þessu ári tóku meira að segja gildi nýjar reglur sem gera þá kröfu að leyfisskyld fjármálafyrirtæki, önnur en bankar, noti evrópsku viðskiptabankana sem milliliði í greiðslumiðlun.“
Til viðbótar verður regluverk evrópska banka- og greiðslumarkaðarins æ flóknara og þyngra í vöfum. Segir Jón Helgi að með hverju árinu séu gerðar umfangsmeiri kröfur af öllu mögulegu tagi sem geri erfiðara fyrir nýja aðila að koma inn á markaðinn og keppa við banka. „Það felst samkeppnisvörn í því fyrir stóra banka að viðhalda þessu dýra reglugerðarflækjustigi. Fyrir stóran banka, með heilu deildirnar af fólki til að sinna eftirliti og uppfæra kerfin í takt við nýjustu reglur og tilskipanir, er það minna mál fyrir stóru bankana en fyrir þá sem eru smærri og sjá tækifæri í að keppa við þessa stóru banka. Niðurstaðan verður þá bara fákeppnismarkaður.“
Jón Helgi segir að það eitt að SBE sé að undirbúa að koma inn á samkeppnismarkað í greiðslumiðlun, og hafi þegar varið gríðarlegu fjármagni í að þróa eigin lausn, veki áleitnar spurningar um valdheimildir evrópskra embættismanna þegar kemur að pólitík. „Embættismenn Seðlabanka Evrópu geta freistað þess að búa til sérevrópska opinbera greiðslumiðlunarlausn sem hróflar sem minnst við evrópskum bönkum og á einnig að verja þá að einhverju leyti gegn fjártæknifyrirtækjum sem vilja keppa við bankana. En alþjóðleg samkeppnin mun að lokum dæma slíkt og sá nýi heimur sem er að teiknast upp verður ekki bundinn við einstök landsvæði.“
Skynsamlegra væri, að mati Jóns Helga, að búa þannig um hnútana að seðlabankarnir þjóni heildsöluhlutverki sínu á banka- og greiðslumiðlunarmarkaði eins og t.d. Svisslendingar hafa gert og Bretar eru líklegir til að leggja áherslu á. „Það má styrkja innviðina en það verður að tryggja heilbrigða samkeppni við gömlu bankana í stað sérevrópskra lausna, því þannig aukum við fjölbreytileika og framfarir í greiðslumiðlun, almenningi í Evrópu til hagsbóta.“