Hreggviður Steinar Magnússon framkvæmdastjóri stafrænu markaðsstofunnar Ceedr, sem hét þar til nýlega The Engine Nordic og er alfarið í eigu auglýsingastofunnar Pipars\TBWA, segir að uppbygging og útrás Ceedr krefjist tíma og fjármagns.
Ceedr er í dag með starfsemi í þremur norrænum löndum auk Íslands og er vöxturinn mestur í Danmörku og Finnlandi að sögn Hreggviðs. „Við höfum fjármagnað vöxtinn alfarið með eigin tekjum og ráðum okkur sjálf. Ef einhver hefði áhuga á að kaupa þessa grúppu okkar eftir einhver ár er það möguleiki, en við ætlum sjálf að efla þetta fyrirtæki og láta það vaxa. Við erum nú með á þriðja tug starfsmanna en stefnum á 100 innan nokkurra ára. Við erum í stöðugum ráðningum. Það er einmitt að byrja hjá okkur hópur af nýju mjög hæfileikaríku starfsfólki eftir áramót,“ segir Hreggviður að lokum.