Ingveldur Gísladóttir, Björgvin Arnar Björgvinsson og Gísli Þorsteinsson hafa tekið við starfi forstöðumanna hjá OK.
Fram kemur í tilkynningu OK að Ingveldur sé forstöðumaður Búnaðarþjónustu, Björgvin Arnar forstöðumaður Innviðalausna og Gísli forstöðumaður Notendabúnaðar.
Um sé að ræða ný svið hjá OK sem hafi það markmið að skerpa á skipulagi fyrirtækisins og stórefla þjónustu til viðskiptavina á fyrirtækjamarkaði.
Björgvin Arnar er með diplóma í kerfisfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann snýr aftur til OK eftir 10 ára fjarveru en hann starfaði hjá Opnum kerfum sem tæknimaður og ráðgjafi á árunum 1999-2013. Þá stofnaði hann eigið ráðgjafafyrirtæki og vann síðan sem kerfisstjóri hjá RARIK.
Ingveldur hefur mikla reynslu á sviði upplýsingatækni. Hún var þjónustustjóri hjá Hátækni frá 2001 til 2013. Hún hóf störf hjá OK árið 2014 og var áður forstöðumaður verkstæðis- og ábyrgðarþjónustu.
Gísli er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, BA í sagnfræði og próf í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands. Hann starfaði lengi vel sem blaðamaður á Morgunblaðinu og var síðar upplýsingafulltrúi hjá Vodafone. Hann hefur einnig starfað sem markaðsstjóri hjá Matís og Origo.