Kvika spáir því að ársverðbólgan haldist óbreytt í 4,8% og vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í desembermælingu Hagstofunnar sem birt verður þann 19. desember næstkomandi.
Í greiningu Kviku segir að bankinn eigi von á því að mælingin marki hlé á samfelldri hjöðnun verðbólgunnar síðan í júlí. Flugfargjöld og húsnæði leggi mest til hækkunar vísitölunnar á milli mánaða en aðrir liðir muni breytast minna. Kvika telur að svigrúm gæti myndast til 175-200 punkta vaxtalækkana á árinu 2025 og á von á samtals 75 punkta lækkun á fundum nefndarinnar í febrúar og mars.
„Við teljum aftur á móti meiri líkur en minni á 50 punkta lækkun í mars í kjölfar verulegrar verðbólguhjöðnunar sem fyrirséð er í febrúar. Að marsfundi loknum gætum við séð nefndina detta í 25 punkta takt á hverjum fundi fram að áramótum, sem fæli í sér hægfara slökun raunaðhalds eftir að verðbólga fer undir vikmörk,“ segir í greiningu Kviku.
Arion banki spáir því einnig að verðbólgan standi í stað. Í greiningu Arion segir að aðeins sé um tímabundið bakslag að ræða og bankinn telji að verðbólgan muni halda áfram að hjaðna þegar líður á næsta ár. Gjaldskrárhækkanir standi þó í vegi fyrir minnkun verðbólgunnar í janúar. Arion spáir því að ársverðbólgan mælist 4,9% í janúar, hún muni síðan hjaðna í 4,5% í febrúar vegna útsöluloka og hækkunar reiknaðrar húsaleigu. Spá bankans fyrir mars nemur 4,1%.
Íslandsbanki spáir óbreyttri verðbólgu í desember og að ársverðbólgan verði komin niður í 3,5% í mars. Landsbankinn spáir því að ársverðbólgan muni mælast 4,7% í desember og verði 3,9% í mars á næsta ári.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.