Arion banki um 40% undirverðlagður

Greinandi metur gengi bankans um það bil 43% yfir núverandi …
Greinandi metur gengi bankans um það bil 43% yfir núverandi markaðsgengi félagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýstofnaða greiningarfyrirtækið Akkur hefur gefið út verðmat á Arion banka þar sem árslokagengi bankans er metið á 231 krónu á hlut. Það er um það bil 43% yfir núverandi markaðsgengi félagsins. Bjartsýnni sviðsmynd verðmatsins skilar niðurstöðu upp á 263 krónur á hlut.

Alexander Jensen Hjálmarsson eigandi Akkurs segir að sér hafi fundist aðrir greiningaraðilar vera fullvarfærnir í að meta tekjumyndun bankans og hafa ofmetið kostnaðarhliðina. Hann spáir aðeins meiri hagnaði en meðaltal annarra greiningaraðila.

„Arion banki er mjög ódýrt verðlagður, líka miðað við spár annarra á markaði. Útlit er fyrir að bankinn muni skila meira en 40% af núverandi markaðsvirði til hluthafa í gegnum arðgreiðslur og endurkaup eigin bréfa á næstu 3 árum,“ segir Alexander.

Hann bætir við að tvö mál hafi helst verið að trufla fjárfesta; annars vegar mál Neytendasamtakanna gegn bankanum og hins vegar staða verðtryggingarjafnaðarins.

„Arion hefur ekki fært neinar varúðarfærslur vegna vaxtamálsins þar sem bankinn telur ólíklegt að tap verði niðurstaðan,“ segir Alexander.

Hann segir að auk þess hafi markaðurinn áhyggjur af því hvað verðtryggingarjöfnuðurinn, mismunurinn á verðtryggðum eignum og verðtryggðum skuldum, sé orðinn hár.

„Það er ekki ákjósanlegt þegar verðbólgan fer lækkandi. Hins vegar hafa bankarnir hækkað verðtryggðu vextina hjá sér,“ segir Alexander.

Spurður hvar hann sjái helst tækifærin í rekstrinum segir hann að það verði fróðlegt að fylgjast með gangi Varðar innan samstæðunnar. Bankinn hafi nokkur fjárhagsleg markmið, tvö af þeim snúa að Verði. Annað er að samsetta hlutfallið verði undir 95% og hitt er að tekjuvöxtur Varðar verði 3% umfram markaðinn.

„Ef tekst að ná þessum markmiðum getur Vörður orðið þokkalega stór hluti af samstæðunni og skilað miklum hagnaði inn í samstæðuna,“ segir Alexander og bætir við að hann sé auk þess bjartsýnn á vöxtinn í þóknanatekjum bankans.

„Mér finnst tækifærin liggja þar og ég tel að markaðurinn sé að vanmeta hvað þóknanatekjur verði fljótar að taka við sér. Vexti í þóknanatekjum fylgir lítill kostnaður ólíkt því að stækka lánabókina þar sem vaxtakostnaður fylgir. Þegar þóknanatekjur aukast skila þær sér nánast beint í hagnað því það er svo lítill viðbótarkostnaður við tekjurnar,“ segir Alexander að lokum.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK