Akkur – Greining og ráðgjöf er nýtt ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í að gefa út verðmöt og greiningar fyrir bæði einstaklinga og lögaðila. Stofnandi Akkurs er Alexander Jensen Hjálmarsson en hann hefur margra ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann er með gráður í viðskiptafræði og verkfræði og meistaragráðu í fjármálum.
Fyrsta verðmatið sem Akkur gefur út er frumskýrsla um Arion banka en hún kemur út í dag og er opin öllum á heimasíðu Akkurs,
www.akkur.net.
Alexander hóf feril sinn í eignastýringu hjá Sjóvá og var síðar ráðinn til GAMMA þar sem hann var í nokkur ár áður en hann fór yfir til Stoða. Hann lét af störfum hjá Stoðum fyrir nokkrum vikum og er nú að hefja sinn eigin rekstur.
Spurður hvers konar greiningar hann muni leggja áherslu á í sínum störfum segir Alexander að það verði fyrst og fremst greiningar á hlutabréfamörkuðum, bæði verðmöt og almenn umfjöllun.
„Ég geri ekki ráð fyrir að gefa út verðbólguspár en mun þó vera með umfjallanir um þær þjóðhagfræðilegu stærðir sem hafa áhrif á markaðinn. Ég ætla enn fremur að einblína á félög sem lítil erlend umföllun er um,“ segir Alexander.
Spurður hvort hann sjái tækifæri í að gefa út efni til erlendra aðila um íslenska markaðinn segir Alexander að það sé í skoðun.
„Ég hef hugsað mér að gefa einnig út greiningar um innlendu félögin á ensku. Slíkt hefur hingað til verið mjög takmarkað og einskorðast við örfá félög sem erlendir greiningaraðilar fylgjast með og það sem bankarnir og verðbréfafyrirtækin hafa gefið út til sinna viðskiptavina,“ segir Alexander.
Spurður hvaða tækifæri hann sjái í því að hefja sinn eigin rekstur á þessu sviði segist hann vera á þeirri skoðun að það vanti dýpri greiningar á markaðinn.
„Þær greiningar sem innlendir aðilar eru að bjóða upp á í dag skortir oft á tíðum meiri dýpt. Ég hef starfað allan minn starfsferil í fjárfestingum og fundist vera vöntun á dýpri greiningum. Ég hef skilning á því að ef menn setja fram greiningar á öllum markaðnum þá er erfitt að fara á dýptina. Ég er að hugsa mína þjónustu sem viðbót við það efni sem nú þegar er í boði,“ segir Alexander.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.