Í nýrri skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins KPMG kemur fram að íslensk fyrirtæki standa sig almennt vel þegar kemur að upplýsingagjöf um sjálfbærnimál. Upplýsingagjöfin verður þó sífellt umfangsmeiri, samkvæmt sömu skýrslu.
Könnunin, sem er alþjóðleg og skoðar 6.000 fyrirtæki í 58 löndum, þar af þau 100 tekjuhæstu á Íslandi, leiðir í ljós að 95% íslensku fyrirtækjanna veita sjálfbærniupplýsingar. Er Ísland samkvæmt samantektinni í hópi 14 landa þar sem yfir 95% félaga birta slíkar upplýsingar. Hefur upplýsingagjöf á Íslandi aukist um fjögur prósentustig frá síðustu könnun.
Margrét Pétursdóttir, yfirmaður sjálfbærnistaðfestinga hjá KPMG, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að í könnuninni sé skoðað hvaða upplýsingar séu veittar og hvort þær séu gefnar en ekki sé lagt mat á gæði upplýsinganna.
Hún segir að hið háa hlutfall fyrirtækja sem veiti upplýsingar séu góðar fréttir.
„Það þýðir að íslensk fyrirtæki eru kannski bara ágætlega í stakk búin til að taka næsta skref, sem er að innleiða reglur Evrópusambandsins sem eru víðtækar, flóknar og umfangsmiklar.“
Margrét segir að eitt sé að geta veitt upplýsingar sem þessar. Hitt sé hvers virði það er fyrir markaðinn í tengslum við grænþvott og slíkt. „Það er ekki að ástæðulausu að ESB er að setja þessar reglur. Upplýsingarnar hafa ekki verið taldar nægilega góðar.“
Margrét áréttar að til að ná markmiði Parísarsáttmálans um kolefnishlutlausa Evrópu árið 2050 sé það grundvallaratriði að upplýsingar sem fyrirtækin veita séu áreiðanlegar.
Áætlað er að sögn Margrétar að þessi nýja tilskipun Evrópusambandsins taki gildi á næsta ári hér á landi. Þá munu fleiri fyrirtæki þurfa að taka upplýsingagjöf um sjálfbærnimál fastari tökum.
Eins og fram kemur í skýrslunni láta aðeins 23% fyrirtækja endurskoðendur staðfesta upplýsingarnar. Margrét segir að Ísland sé langt á eftir samanburðarlöndunum hvað þetta atriði varðar. „Sú grundvallarbreyting er í nýju ESB-reglunum að fyrirtækin verða gerð skyldug til að láta staðfesta upplýsingarnar. Það er valkvætt í dag.“
Hún áréttar að þrátt fyrir alla skýrslugjöf og úttektir snúist málið samt í grunninn um að breyta starfsemi fyrirtækja, losa minna kolefni og búa til betri heim.
Í skýrslunni kemur fram að 24% íslenskra fyrirtækja ætla að ná markmiðum um minnkun losunar með því að draga úr henni. Hin ætla að planta trjám til að kolefnisjafna. „Ég hef kallað eftir því að fleiri íslensk félög hugsi um að draga úr losun enda er málefnið brýnt. Við eigum bara eina jörð.“
Spurð hvaða fyrirtæki séu til fyrirmyndar í þessum efnum hér á landi nefnir Margrét stoðtækjafyrirtækið Össur sem sé mjög framarlega í sjálfbærnimálum. „Össur er framleiðslufyrirtæki sem mengar en þau hafa lyft grettistaki í þróun umhverfisvænna umbúða og eru framarlega í allri áætlanagerð og fleiru.“
Margrét segir að nýja ESB-reglugerðin þýði að fyrirtæki verði að fara að huga að undirbúningi í staðinn fyrir að redda hlutum á síðustu stundu. „Þetta er of stórt verkefni til að hægt sé að bjarga því á elleftu stundu. Mörg fyrirtæki standa sig vel en önnur eru varla byrjuð.“
Spurð um tilhneigingu til gullhúðunar reglna ESB hér á landi, sem þýðir að gert er meira en krafist er, segir Margrét að gullhúðun fyrirfinnist vissulega í núverandi reglum. „En markmiðið hjá fyrrverandi ríkisstjórn og ráðuneytum er að eyða út þessari gullhúðun og ganga í takt við Evrópu. Það er nóg að gera það sama og Evrópa.“