Frelsishetjan sem beðið var eftir

Fyrsta árið var allt annað en auðvelt en vinsældir Javiers …
Fyrsta árið var allt annað en auðvelt en vinsældir Javiers Milei hafa bara aukist. Almenningur hefur trú á frelsinu og þessum svakalegu börtum. AFP/Mauro Pimentel

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Frjálshyggjumenn minntust þess fyrr í mánuðinum að hálf öld var liðin frá því að Friedrich Hayek tók við Nóbelsverðlaununum. Hagfræði var bætt við sem Nóbelsverðlaunaflokki árið 1969 og í ræðu sem hann flutti þegar hann tók við verðlaununum kvaðst Hayek hafa ákveðnar efasemdir um að veita hagfræðingum aðra eins vegtyllu: bæði gæti það ýtt undir tískusveiflur innan greinarinnar og einnig gefið smáum hópi útvalinna fræðimanna fullmikið vægi innan fræðasviðsins. Var ræðan í takt við þann rauða þráð sem liggur í gegnum helstu kenningar Hayeks, að ágætt sé að vera hæfilega tortrygginn í garð hámenntaðra og uppljómaðra snillinga.

Eitt mikilvægasta framlag Hayeks var einmitt að sýna fram á hvernig sérfræðingunum sem vilja miðstýra samfélaginu eru takmörk sett; að jafnvel vandaðasta og klárasta fólk búi ekki yfir nema litlu broti af þeirri þekkingu sem dreifist á meðal allra þeirra einstaklinga sem mynda hagkerfið og verður ákvarðanataka þeirra eftir því. Þá sýndi Hayek fram á hvernig inngrip í peningamál þjóða – meira að segja með dúxa, undrabörn og ofvita við stjórnvölinn – bjagi verðskilaboð hagkerfisins og valdi alls konar vandræðum.

Þegar litið er yfir sögu síðustu aldar og þessarar er ekki annað að sjá en að Hayek hafi haft rétt fyrir sér að flestu eða öllu leyti. Dæmin sýna okkur, trekk í trekk, að því meira sem ríki færast í átt að miðstýringu og ríkisafskiptum, því verr reiðir þeim af á alla vegu. Hins vegar vegnar ríkjum því betur sem þau fikra sig nær því að hámarka frelsið og lágmarka inngripin.

Vandinn er sá að það er erfitt að halda afskiptasömum embættismönnum og pólitíkusum í skefjum, og þegar ófrelsið nær að skjóta rótum breiðir það smám saman úr sér. Það er oft ekki fyrr en þjóðir eru lentar í meiri háttar ógöngum að alvöru frjálshyggja nær að fá einhvern hljómgrunn hjá kjósendum og röggsamir frambjóðendur geta átt einhvern séns á að fá það umboð sem þeir þurfa til að höggva á hnútinn.

Áttatíu ár á rangri braut

Meginverk Hayeks, Leiðin til ánauðar, kom út árið 1944 og hefur kannski ekki verið fáanleg í spænskri útgáfu þegar Juan Perón komst til valda árið 1946. Alltént er ekki að sjá að Perón hafi lesið bókina, né þeir forsetar sem á eftir honum komu – sama hvaða flokki þeir tilheyrðu. Perónisminn hefur litað stjórnmálasögu Argentínu undanfarin 80 ár, en sá munur var helst á Perónistum og herforingjastjórnunum að Perónistarnir lögðu meiri áherslu á að útdeila alls konar fríðindum til almennings.

Eins og einn kennarinn komst að orði þegar ég stundaði nám í Buenos Aires, þá var það sem helst aðgreindi Perónistana frá hinum flokkunum – og skýrði hvers vegna peróníska hugmyndafræðin varð svona langlíf – að almenningur upplifði Perónistana sem þann flokk sem þætti í alvöru vænt um hinn vinnandi mann.

Afskipti, miðstýring, höft og kvótar voru aftur á móti stefna allra flokka, allt þar til Carlos Menem mætti til leiks árið 1989 og reyndi (þrátt fyrir að vera Perónisti) að leysa hagkerfið úr enn einni snörunni með meiri háttar einkavæðingaraðgerðum. Tíu ára valdatíð Menems heppnaðist ekki betur en svo að þegar henni lauk var brostin á meiri háttar efnahagskreppa í Argentínu og á tímabilinu 1998 til 2002 skrapp hagkerfi landsins saman um rösklega fjórðung.

Frá hruninu um aldamótin hafa Perónistarnir farið með völdin, að undanskildu einu kjörtímabili miðju-hægrimannsins Mauricio Macri. Síðasti aldarfjórðungur hefur farið í efnahagslegt slökkvistarf en lítið sem ekkert verið gert til að ráðast að rótum vanda argentínska hagkerfisins sem er í hópi þeirra ófrjálsustu sem finna má í heiminum.

Svo gerðist það árið 2023 að Argentínubúar kusu sér nýjan forseta sem hafði ekki bara lesið Hayek, heldur vitnar oft í hann orðrétt í ræðum sínum og viðtölum.

Litríkur og reynslulaus

Það er ekki skrítið að fólk hafi haft efasemdir um Javier Milei. Hann hafði unnið það sér það til frægðar að vera litríkur og orðhvass álitsgjafi, og árið 2020 komst hann á þing fyrir nýstofnaðan frjálshyggjuflokk, Avanza Libertad. Hann leiddi svo, árið 2021, stofnun kosningabandalags frjálshyggjumanna, La Libertad Avanza, sem tókst að fá 17% atkvæða í þingkosningunum sama ár.

Gott ef Milei virtist ekki léttruglaður í samanburði við aðra frambjóðendur, með úfinn lubbann og mjög dramatískar yfirlýsingar um menn og málefni. Á köflum virtist hann hálfgerður trúður og kosningabaráttan eins og sviðsgjörningur þar sem Milei hoppaði og skoppaði, sveiflandi drynjandi keðjusög í allar áttir – því nú skyldi ekki skera niður með penum skurðhníf heldur skyldi ráðast til atlögu við báknið fyrir alvöru.

Og hvað þóttist hann annars vera með nánast enga reynslu af stjórnmálum og stjórnsýslu? Milei hafði kennt hagfræði í tvo áratugi, starfað sem aðalhagfræðingur hjá HSBC um skeið, og haft viðdvöl hjá hugveitum og alþjóðastofnunum, en aldrei hafði hann farið með nein alvöru pólitísk völd.

Og samt taldi Milei sig vita lausnina á efnahagsvanda þjóðar sem í heila öld hefur glímt við svo erfiðar áskoranir að þegar hagkerfi eru flokkuð í kennslubókum hagfræðinemenda fær Argentína sinn sérflokk sem ólæknanlegt efnahagslegt furðufyrirbæri.

Sjúklingurinn braggast

Augu heimsbyggðarinnar hafa verið á Milei fyrsta ár hans í forsetastóli.

Vistrimenn súmmera fyrsta árið upp sem mikið vandræðatímabil: ársverðbólga er enn í hæstu hæðum, hærra hlutfall landsmanna lifir undir fátæktarmörkum, hálf þjóðin er atvinnulaus og landsframleiðsla hefur dregist saman.

Frjálshyggjumenn benda hins vegar á að sjúklingurinn hafi verið illa haldinn þegar aðgerðin hófst og muni þurfa meiri tíma til að jafna sig á uppskurðinum. Landsframleiðsla hefur dregist saman, en það er ekki skrítið eftir meiri háttar niðurskurð í hagkerfi þar sem hið opinbera myndaði um helming landsframleiðslunnar. Verðbólga á ársgrundvelli er enn há – yfir 200% – en verðlagshækkun milli mánaða er á hraðri niðurleið og jafngildir 37% ársverðbólgu.

Atvinnuleysi jókst en fer núna minnkandi; bilið á milli opinbers gengis argentínska pesóans og svartamarkaðsgengisins hefur líka minnkað, og argentínski hlutabréfamarkaðurinn er kominn á flug. Eftir erfitt aðlögunartímabil eru laun loksins farin að hækka hraðar en matvörurnar úti í búð og nýlega gaf JP Morgan út greiningu þar sem spáð er meira en 5% raunhagvexti í Argentínu á næsta ári.

Síðast en ekki síst er ríkissjóður rekinn með miklum afgangi. Það hefur ekki gerst í 125 ár, ef undan er skilið tíu ára tímabil þegar stjórnvöld slepptu því að greiða skuldir ríkissjóðs.

Þrátt fyrir niðurskurðinn og sársaukafullar breytingar sýna kannanir að vinsældir Milei fara vaxandi.

Þetta hefur hinum reynslulausa Milei tekist þrátt fyrir að hafa argentínska þingið á móti sér. Verður spennandi að sjá hvað gerist í þingkosningum sem fara fram í október á næsta ári, þegar kjörtímabil Milei er hálfnað, en þá verður kosið um helming sætanna í neðri deild þingsins og þriðjung sætanna í efri deildinni.

Boltinn byrjar að rúlla

Svei mér þá ef þetta er ekki að takast hjá karlinum, og er Milei samt bara rétt að byrja.

Tiltektin tekur sinn tíma og þurfti t.d. að setja á laggirnar sérstakt ráðuneyti til að grisja laga- og reglugerðasafnið af alls konar óþarfa. Það er þessu ráðuneyti að þakka að með hverjum deginum verða íbúar Argentínu frjálsari og auðveldara verður að stunda þar atvinnurekstur.

Finna má mörg dæmi um hversu miklu það breytir að losna við heimskulegar reglur. Þannig felldi ríkisstjórn Milei úr gildi gömul ákvæði um að gefa þyrfti út leyfi fyrir innflutningi á raftækjum og fatnaði og fyrir vikið lækkaði verðið á þessum vöruflokkum um 35% annars vegar og 20% hins vegar.

Leigumarkaðurinn var líka frelsaður. Eldri lög kváðu á um að leigusamningar þyrftu að gilda í þrjú ár, mættu aðeins vera gerðir í pesóum og að ekki mætti leiðrétta leiguverðið m.t.t. verðbólgu nema einu sinni á ári. Nú geta leigjendur og leigusalar samið sín á milli n.v. eins og þeim sýnist, og eins og hendi væri veifað tvöfaldaðist framboð leiguíbúða á landsvísu og þrefaldaðist í Buenos Aires svo að verð leiguhúsnæðis lækkaði!

Eitt mikilvægasta gæfuspor Mileis var samt að greiða leið erlendrar fjárfestingar. Nýlega tókust samningar um nýtingu risastórs jarðgassvæðis í vesturhluta landsins, sem fyrir ríkisstjórnum hafði tekist að sigla í strand. Milei tryggði erlendum fyrirtækjum og fjárfestum 30 ára vinnufrið svo að nú munu milljarðar dala streyma inn og gera Argentínu að einum stærsta jarðgasframleiðanda heims.

Liðið er ár af kjörtímabilinu og er þegar orðið ljóst að Milei verðskuldar sess á meðal merkilegustu stjórnmálamanna okkar tíma. Gott ef það þarf ekki að leita allt aftur til Margrétar Thatcher til að finna annan eins frjálshyggjuskörung.

Svo er það bónus að eftir því verður tekið ef Milei tekst að koma Argentínu í lag. Afskiptasinnar og blýantanagarar heimsins mega vara sig ef Milei tekst að sýna kjósendum um víða veröld að á leiðinni til ánauðar er aldrei of seint að taka U-beygju.

Grein­in birt­ist í ViðskiptaMogg­an­um sl. miðviku­dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK