Klak – Icelandic Startups hefur valið níu sprotafyrirtæki til þátttöku í viðskiptahraðlinum Startup Tourism sem hefur það markmið að hvetja til nýsköpunar og tæknivæðingar innan íslenskrar ferðaþjónustu.
Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Klaks segir að níu nýsköpunarfyrirtæki hafi verið valin og það sé gleðiefni að helmingur þeirra komi frá landsbyggðinni.
„Við lögðum mikla áherslu á að fá teymi utan af landi til þess að taka þátt í hraðlinum og fórum ferð um landið til þess að kynna hraðalinn. Það skilaði sér í því að bæði helmingur umsókna og teyma sem taka þátt í hraðlinum í ár er frá landsbyggðinni,“ segir Ásta í samtali við Morgunblaðið.
True Arctic Travel úr Eyjafirði er sprotafyrirtæki frá landsbyggðinni og segir Eyjólfur Guðmundsson forsvarsmaður að hugmyndin sé að ferðafólk fái að njóta en ekki þjóta á ferðalagi sínu um landið með því að hagnýta nýjustu tækni á sviði gervigreindar og sjávirknivæðingar.
„Það sem ég vil að fólk upplifi er þessi kyrrð og ró þegar það horfir út á Norður-Íshafið, hvort sem það er af Siglunesinu, við Strákagöngin á Siglufirði, í Héðinsfirði eða úr Flateyjardalnum. Þar er að segja þessi ró að horfa til norðurs þar sem er ekkert nema bara þú og náttúran. Það er eiginlega ekki hægt í dag að fólk upplifi slíkt á Suðurlandinu,“ segir Eyjólfur.
Hann segir hugmyndafræðina byggjast á hægfara ferðamennsku (e. slow tourism) eða „njóta en ekki þjóta“ eins og Eyjólfur kýs að kalla það.
„Það er grundvöllurinn að þessu öllu saman í staðinn fyrir að keyra hringinn um landið þar sem margir vinsælustu ferðamannstaðir eru þéttsetnir. Reyna fremur að koma og vera á stöðum sem eru kannski ekki utan alfararleiðar, en ekki beinlínis í alfaraleið, þar sem fólk getur upplifað íslenska náttúru í friði og ró,“ segir Eyjólfur.
Guðrún Matthildur Sigurbergsdóttir, líffræðingur og mastersnemi í nýsköpun og viðskiptaþróun, vill setja á laggirnar hér á landi gagnvirkt vísindasetur.
„Hugmyndin er að setja á fót vísindasetur á Íslandi sem yrði sambærilegt við þau sem víða má finna í borgum erlendis. Til dæmis eru vísindasetur bæði í Kaupmannahöfn og Gautaborg. Meginmarkmiðið með því að vera með vísindasetur á Íslandi er að auka vísindalæsi og efla áhuga hjá börnum og fullorðnum á vísindum og tækni,“ segir Guðrún Matthildur, eigandi sprotafyrirtækisins Alheims.
Aðspurð segir hún að það yrði viss upplifun að heimsækja vísindasetrið, þar sem lögð er áhersla á skemmtun með leikrænni framsetningu sem myndi heilla gesti. Þannig situr eftir löngunin til að fræðast meira.
„Það verður sérsök upplifun að fara í gegnum vísindasetrið. Það væri t.d. gaman að ganga í gegnum sérstaka deild sem getur frætt fólk um mannslíkamann, t.d. í gegnum nös eins og í setrinu í Gautaborg. Upplifunin verður bæði leikræn og áhugaverð svo að bæði börn og fullorðnir fræðist um tækni og vísindi án þess að þurfa lesa sér til. Það verða skjáir með gagnvirku efni sem útskýra tækni og vísindi á aðgengilegan hátt sem allir geta skilið og haft gaman af,“ segir Guðrún.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.