Akkur – Greining og ráðgjöf er nýtt ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í að gefa út verðmöt og greiningar fyrir bæði einstaklinga og lögaðila. Stofnandi Akkurs er Alexander Jensen Hjálmarsson en hann hefur margra ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann er með gráður í viðskiptafræði og verkfræði og meistaragráðu í fjármálum.
Spurður hvort hann hyggist aðeins selja greiningarnar sínar til fjármálafyrirtækja eða hvort hann ætli einnig að bjóða almenningi upp á að kaupa greiningarnar segir Alexander að hann ætli að gera hvort tveggja. Fyrsta greiningin, sem er líkt og áður sagði verðmat á Arion banka, er opin öllum. Síðan mun hann læsa efninu og byrja að selja áskriftir.
„Einstaklingsáskrift verður ódýrari en lögaðilaáskrift, ég mun hefja sölu á áskriftum til einstaklinga fyrir 5.000 kr. á mánuði strax eftir áramót. Ég mun þó alltaf birta fría og styttri útgáfu af verðmötunum 1-2 vikum síðar,“ segir Alexander.
Hann segir að sér finnist mikilvægt að auka áhuga almennings á fjárfestingum og vill aukna umræðu um fjármál á Íslandi. Það að birta fría útgáfu af greiningum er framlag hans til þess.
„Ég var formaður Ungra fjárfesta fyrir mörgum árum og síðan þá hef ég alltaf haft áhuga á að auka áhuga almennings á fjárfestingum. Ég hef verið í samtali við fjármálastofnanir um að styðja við bakið á mér í að efla umræðuna því það er til mikils að vinna fyrir alla. Eins og staðan er í dag hefur almenningur ekki mikinn aðgang að verðmötum nema úr þeim fréttum sem af þeim birtast,“ segir Alexander.
Hann segir að Svíum hafi tekist mjög vel til að auka áhuga almennings á fjárfestingum. Miðað við stærð landsins er hlutabréfamarkaðurinn margfalt stærri þar bæði í fjölda fyrirtækja og virkni markaðarins.
„Þar í landi á almenningur í mörgum tilfellum meirihlutann í þeim félögum sem skráð eru á markað,“ segir Alexander.
Spurður hvaða skref hann myndi vilja sjá til að efla íslenska hlutabréfamarkaðinn segir hann að mikilvægast sé að einfalda kerfið og setja á skattalega hvata.
„Í Svíþjóð virkar skattkerfið þannig að þú þarft ekki að telja fram hver einustu viðskipti sem þú gerir. Þú gefur bara upp stöðuna á vörslusafninu þínu í lok ársins. Þannig að það er mun einfaldara en hér á Íslandi. Þar eru einnig skattalegir hvatar til hlutabréfakaupa og fólk hefur meira frelsi til að ráðstafa séreignarsparnaði sínum,“ segir Alexander.
Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.