Árni Sigurðsson forstjóri Marel og verðandi aðstoðarforstjóri (e. President) hjá sameinaða félaginu JBT Marel segir í samtali við viðskiptavef mbl.is að sú staðreynd að yfir 97% hluthafa hafi samþykkt samruna félaganna endurspegli sterka sannfæringu meðal hluthafanna á því hversu vel félögin passi saman.
JBT tilkynnti í gær um samþykki yfir 97.5% hluthafa Marel á valkvæðu yfirtökutilboði JBT, sem er vel yfir lágmarks 90% samþykkis sem leitað var eftir.
Samkvæmt tilkynningu til Kauphallar hafa öll skilyrði tilboðsins nú verið uppfyllt, þar með talið samþykki hluthafa Marel sem eiga yfir 90% af útgefnum og útistandandi hlutum í félaginu.
Starfsemi JBT annars vegar og Marel hins vegar er á margan hátt ólík. Árni segir aðspurður hvernig sé að sameina svo ólík félög að tækifærin séu mörg og að starfsemi félagnana sé á margan hátt lík.
„Ég tel að vöruframboðið falli vel að hvort öðru og mikil tækifæri liggja í að bjóða viðskiptavinum betri lausnir með breiðara vöruframboði og inn á fleiri endamarkaði. Við sjáum fram á að ná samlegð í innkaupum og það er stærðarhagkvæmni fólgin í að búa til einstakt félag á markaði. Þetta verður stærsta félagið á sínum markaði,“ segir Árni.
Spurður út í rekstrarmarkmið sameinaðs félags segir Árni að félagið muni einblína á tekjusamlegð. JBT sé leiðandi í frystum á heimsvísu meðan Marel eins og þekkt er einblínir á framleiðslu hátæknilausna og hugbúnaðar til að vinna kjúkling, kjöt og fisk, en einnig fyrir gæludýrafóður og plöntuprótein.
„Við sjáum tækifæri í að samþætta söluna hjá félögunum og gott dæmi er þar sem Marel kemur með flæðilínur og róbota en JBT með frysta og pökkunarlausnir,“ segir Árni.
Hann bætir við að hann sjái líka tækifæri til að gera betur á kostnaðarhliðinni.
„Stærra félag hefur að sama skapi meiri slagkraft í innkaupum sem dæmi og eins er hægt að fá fram betri framleiðni með að nýta þær víðtæku innviðafjárfestingar sem Marel hefur þegar ráðist í. Dæmi um slíkar fjárfestingar er vöruhús í Hollandi fyrir varahluti. Við höfum líka verið með framleiðslu í Slóvakíu þar sem við höfum tiltölulega nýlega aukið afkastagetuna. Það eru því mörg tækifæri fyrir sameinað félag til að vaxa,“ segir Árni.
Spurður hvort JBT Marel sé með markmið til að vinda ofan af skuldsetningu í ljósi þess að sameinað félag verði talsvert skuldsett segir Árni að mikil áhersla verði lögð á að draga úr skuldsetningu.
„JBT hefur verið að finna rétt jafnvægi milli þess að þynna hluthafa sína ekki of mikið og hafa rétta skuldsetningu,“ segir Árni og bætir við að það útskýri af hverju skiptihlutfallið á endurgjaldi til hluthafa Marel er 65% bréf og 35% reiðufé. Skuldsetning sameinaðs félags verður aðeins hærri an langtímamarkmið til að byrja með en stefnt er að því að það fari lækkandi og verði innan markmiða sameinaðs félags fyrir lok árs 2025.
„Við munum sem allra fyrst taka skref til að lækka skuldsetningu. Við höfum séð jákvæð teikn á lofti þar sem markaðurinn er að taka við sér eftir erfið ár. Við sjáum tækifæri til að gera betur í rekstrinum með því að bæta framlegð og sjáum tækifæri í samlegð sameinaðs félags,“ segir Árni.
Spurður hvernig tvískráningin horfi við honum og hvort hann hafi trú á því að virknin á innlenda markaðnum með bréf JBT Marel verði mikil segir Árni að það sé í höndum hluthafa hversu öflugur markaðurinn verði hér á landi. Hann bætir við að að hlutahfar Marel hafi sýnt mikinn stuðning í gegnum árin og haft trú á þeirri vegferð sem Marel hefur verið á. Marel er það félag sem hefur verið hvað lengst skráð í kauphöllina hér á Íslandi, en frá skráningu í íslensku Nasdaq kauphöllina 1992, hefur Marel vaxið frá því að vera með 45 starfsmenn, í yfir 7.000 starfsmenn í 30 löndum í dag, þar af um 700 á Íslandi.
„Trúin á sameinað félag ætti að vera enn sterkari því sameinað félag býður upp á meiri stærðarhagkvæmni, breiðara vöruframboð, sterkara net fyrir fjarlæga markaði á borð við Asíu og Suður- Ameríku, auk meiri slagkrafts sem unnt er að setja í þróun á stafrænum lausnum. Ég er mjög spenntur fyrir því sem er framundan og ævintýrið um Marel heldur áfram,“ segir Árni að lokum.