Samtök skattgreiðenda hafa að undanförnu freistað þess að kortleggja hve margir starfsmenn hins opinbera eru í raun og veru. Róbert Bragason situr í stjórn samtakanna og segir hann margt benda til að réttur fjöldi þeirra sem starfi hjá hinu opinbera sé mun meiri en talið hefur verið:
„Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur síðasta vetur kom fram að virk stöðugildi hjá stofnunum ríkisins væru um 19.500 talsins en það stemmir hvorki við tölur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, né stéttarfélaga ríkisstarfsmanna sem eru með yfir 30.000 virka meðlimi. Það eitt gæti bent til þess að ríkisstarfsmenn séu í kringum 50% fleiri en hefur verið gefið upp, t.d. á upplýsingavef Fjársýslu ríkisins.“
Róbert segir brýnt að fá rétta mynd af því hve margir starfa hjá hinu opinbera svo að betur megi leggja mat á hversu vel stofnanir og sveitarfélög gegna hlutverki sínu. „Undanfarin fimm ár höfum við hjá Samtökum skattgreiðenda verið að kanna hina og þessa þætti í rekstri hins opinbera og hefur það komið okkur verulega á óvart hve lítil gæði eru í þessum rekstri. Sífelld krafa virðist vera um að almenningur borgi hærri skatta en upplifun margra er að á sama tíma fái fólk sífellt minni og lakari þjónustu hjá hinu opinbera,“ útskýrir hann. „Virðist sama hve mikið útgjöld til alls konar málaflokka aukast, stofnanir kvarta undan því að búa við viðvarandi fjárskort, undirmönnun og álag, en þegar rýnt er betur í tölurnar virðist slíkt tal ekki endilega eiga við rök að styðjast.“
Að sögn Róberts er útlit fyrir að í þeim tölum sem birtar hafa verið opinberlega vanti að verktakar og fólk á tímabundnum ráðningarsamningum sé talið með og eins virðast opinberar tölur mæla stöðugildi frekar en sýna starfsmannafjölda. „Þetta veldur óásættanlegri skekkju í þeim tölum sem stjórnvöld gefa upp og myndi það aldrei líðast í einkarekstri ef stjórnandi gæfi hluthöfum ekki upp nákvæmar og hárréttar tölur um hversu mörgum starfsmönnum hann hefur á að skipa. Mætti hreinlega ganga svo langt að tala um trúnaðarbrest á milli stjórnvalda og skattgreiðenda þegar upplýsingagjöfin er jafn ónákvæm og raun ber vitni.“
Róbert bætir við að Samtök skattgreiðenda hafi fylgst náið með þróun mála bæði í Argentínu og Bandaríkjunum þar sem hagræðingarnefnd (e. DOGE) mun senn hefja störf. Segir hann vinnu samtakanna miða að því að hægt verði að nota niðurstöðurnar til að gera róttæka hagræðingu hjá hinu opinbera án þess að það komi niður á þeim sem nýta þjónustu ríkis og sveitarfélaga.
Það er heilmikið verk að kortleggja starfsmannahald hins opinbera og hafa Samtök skattgreiðenda farið þá leið hingað til að taka stikkprufur. Róbert segir mælingarnar til þessa hafa sýnt að algengt sé að raunverulegur starfsmannafjöldi sé um 30% hærri en gefið hafði verið upp, og starfsmenn jafnvel 100% fleiri en uppgefin stöðugildi. „Þessar tölur má að hluta til skýra með vaxandi hlutastarfavæðingu hjá ríkinu og sveitarfélögunum, en einnig að stjórnendur virðast í auknum mæli ráða verktaka til starfa og virðast í sumum tilvikum gera það til að fegra eigið starfsmannabókhald eða fara á svig við fyrirmæli um ráðningarbann svo að starfsmannatölurnar líti þannig út að aðhaldið í rekstrinum sé meira en ella,“ segir Róbert og bætir við að einnig megi finna allmörg dæmi um að hið opinbera standi straum af launum starfsmanna rekstrarfélaga og félagasamtaka án þess að viðkomandi teljist til opinberra starfsmanna í þeim tölum sem stjórnvöld hafa birt.
Þykir Róberti margt benda til að svokölluð gerviverktaka sé útbreidd hjá hinu opinbera. „Það getur verið eðlilegt að vinnustaðir eins og Háskóli Íslands fái fólk til að sinna stundakennslu í verktöku enda um að ræða hlutastarf með breytilegt vinnuálag, en öðru gegnir um einstaklinga sem eru greinilega að gegna fullu starfshlutfalli yfir lengri tíma,“ segir hann. „Þá vekur það spurningar þegar margir opinberir starfsmenn með stjórnendatitla eru í hlutastarfi. Það er einkennilegt ef einstaklingur sem stýrir sviði eða deild er kannski í 30% starfi, eða að tvær eða þrjár manneskjur í hlutastarfi stýri rekstrareiningu. Hver af þessum stjórnendum er það þá sem ber ábyrgð á deildinni?“
Um notkun verktaka segir Róbert eðlilegt að spyrja hvort þeir sem nýta sér þjónustu hins opinbera njóti alltaf sömu verndar og réttinda ef eitthvað skyldi bera út af. „Ef ég leita t.d. til heilsugæslu og fæ aðstoð læknis eða hjúkrunarfræðings og mistök eiga sér stað, er réttur minn sá sami ef umræddur starfsmaður er verktaki frekar en venjulegur starfsmaður hins opinbera?“
Róbert segir réttari tölur um fjölda opinberra starfsmanna líka skapa efasemdir um fullyrðingar stjórnvalda um að stöðugildum hjá hinu opinbera hafi farið fækkandi, eða fjölgun opinberra starfsmanna ekki haldið í við íbúafjölgun í landinu. „Okkar niðurstöður benda til að ekkert sé að marka tölur hins opinbera um eigið umfang, og þrátt fyrir að ríkisreikningur sýni að fjárfest hafi verið fyrir tugi milljarða í hugbúnaði á undanförnum árum er erfitt að greina merki um aukna skilvirkni.“
Samtök skattgreiðenda óskuðu nýverið eftir launatölum hvers eins og einasta ríkisstarfsmanns, með nafni, kennitölu og launafjárhæð til að geta mælt og greint starfsmannahald hins opinbera enn betur. Eiga þessar upplýsingar að vera til hjá Fjársýslu ríkisins en leita þarf beint til nokkurra stofnana sem eru ekki með sitt bókhald hjá Fjársýslunni. „Í upplýsingalögum er ákvæði sem setur þá skyldu á opinbera aðila að veita okkur þessi gögn, og jafnvel ef slík skylda væri ekki fyrir hendi er óreiðan og ónákvæmnin í uppgefnum tölum svo mikil að ég er ekki í vafa um að úrskurðað yrði okkur í hag ef þessi beiðni okkar færi fyrir dómstóla,“ segir Róbert og bætir við að samtökin hafi tekið það fram í beiðni sinni að launagögn þeirra sem starfa hjá lögreglunni verði gerð ópersónugreinanleg.
Er vonandi að gagnaöflunin gangi hnökralaust fyrir sig en Róbert segir það hafa einkennt þetta rannsóknarverkefni Samtaka skattgreiðenda hve mikið hefur þurft að þrýsta á stofnanir að reiða fram umbeðin gögn. „Það virðist óskrifuð regla hjá hinu opinbera að ef leiðinlegt erindi berst frá einhverjum ótíndum borgara þá er það einfaldlega hundsað í fyrstu. Í öllum samskiptum okkar hefur setningin „erindið er ítrekað“ líklega verið sú sem við höfum þurft að nota mest,“ segir hann. „Samanburður á milli gagna úr ólíkum áttum hefur líka iðulega leitt í ljós að þær tölur sem við höfum fengið í fyrstu atlögu hafa ekki verið réttar, og við þurft að benda viðkomandi stofnunum á að tölum beri ekki saman og þannig náð að hrista út úr þeim réttar upplýsingar.“
Róbert bendir jafnframt á að það virðist æ algengara að stofnanir birti ekki á heimasíðum sínum lista yfir starfsmenn og símanúmer þeirra eða tölvupóstföng. „Hvað þessi mál varðar virðist á síðustu árum hafa dregið mjög úr upplýsingagjöf flestra stofnana og hafa starfsmannalistar verið fjarlægðir. Til að flækja samskiptin enn frekar eru t.d. sum ráðuneytin farin að stunda það að svara erindum nafnlaust og er það merkileg þróun.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.