Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. tilkynnti nýverið að félagið hefði gert samkomulag við Þórsberg ehf. á Tálknafirði um kaup á allri krókaaflahlutdeild og krókaaflamarki fiskveiðiársins 2024/2025 af Þórsbergi. Um er að ræða 1.499 þorskígildistonn samkvæmt skráningu Fiskistofu, en kaupverðið er 7,5 milljarðar króna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Svo virðist vera sem aðrar eignir Þórsbergs, svo sem línubáturinn Indriði Kristins BA-751, séu undanskildar í kaupunum. Hann er af nýjustu gerð og var smíðaður 2022 af Trefjum ehf. í Hafnarfirði. Báturinn er 11,97 metrar og 28,9 brúttótonn.
Útgerðarfélag Reykjavíkur er í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims og er jafnframt stærsti hluthafi Brims. Brim er næststærsti hluthafi í Þórsbergi og fer með 40% hlutafjár þess.
Guðjón Indriðason er stærsti hluthafi í Þórsbergi og fer hann með 4% beint en 39% til viðbótar í gegnum félag sitt Litli vinur ehf. Afkomendur Guðjóns, þau Indriði Kristinn, Jóna Valdís, Kristrún og Magnús Kristján, fara hvort um sig með 4% hlut.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.