Fjölga starfsfólki á nýju ári

Tekjur Metta Sport rúmlega þrefölduðust milli áranna 2022 og 2023.
Tekjur Metta Sport rúmlega þrefölduðust milli áranna 2022 og 2023.

Tekjur íþróttavörumerkisins Metta Sport rúmlega þrefölduðust milli 2022 og 2023. Hagnaður margfaldaðist einnig.

Metta Sport er eitt allra vinsælasta fatamerkið meðal íslenskra ungmenna.

Rekstrartekjur félagsins námu 357 m.kr. 2023 og hækkuðu um 251 m.kr. milli ára. Hagnaður nam 93 m.kr. en var 18 m.kr. árið á undan.

Pétur Kiernan, stofnandi og aðaleigandi, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækið hafi haldið áfram að vaxa hratt 2024. „Salan var sterk á árinu,“ segir Pétur.

Spurður um forsögu sína segist Pétur hafa æft fjölmargar íþróttir frá ungum aldri en lengst af fótbolta. „Ég get ekki sagt að minn bakgrunnur komi frá verslun eða viðskiptaumhverfi en ég var í Versló og kláraði svo BSc í fjármálaverkfræði 2020. Á menntaskólaárunum hannaði ég föt með vinum mínum undir nöfnunum Child og CCTV. Sú reynsla hefur gagnast mér vel í dag með Metta Sport.“

Hvenær og hvernig fæddist hugmyndin?

Ég var á leiðinni í mastersnám í Háskólanum í Kaliforníu í Los Angeles, UCLA, en vegna covid-faraldursins frestaðist það um eitt ár. Það gaf mér óvænt tækifæri til að sinna einhverju nýju verkefni.

Pétur Kiernan.
Pétur Kiernan.

Ég hef haft áhuga á tísku, fötum, heilsu og íþróttum frá því að ég var unglingur. Ég hafði þá verið að æfa CrossFit í nokkur ár og fannst þá einhvern veginn eins og allir væru í svipuðum fötum. Ég taldi að takmarkað úrval af íþróttafatnaði á Íslandi léki þar stórt hlutverk. Ég sá tækifæri í þessu og ákvað því að láta reyna á mínar hugmyndir. Þá fæddist hugmyndin að Metta Sport.“

Fötin eru að sögn Péturs framleidd í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum. „Hönnunin er unnin af okkur en við leitum einnig til vina okkar sem gefa okkur endurgjöf á efnin sem við notum og sniðin. Við leggjum mikla áherslu á að vera með vandaða vöru og eru lífsstílsfötin okkar t.d. úr 100% bómull sem ég og margir aðrir erum hrifnir af. Við höfum hins vegar tekið eftir því að sumir viðskiptavinir okkar kjósa léttari fatnað. Við fórum því til Portúgals fyrr á árinu til að hitta framleiðendur og skoða verksmiðjur í þeim tilgangi að kynna okkur mismunandi tegundir efna til að geta boðið upp á fleiri útgáfur af lífsstílsfatnaði okkar á árinu 2025.“

Hafið þið einhver plön um að stækka – þ.e. fleiri búðir, fleiri lönd, o.s.frv.?

„Vöxtur Metta Sport hefur verið svo hraður að það hefur ekki gefist tími fyrir slíkar pælingar enn. Við fáum þó reglulega skilaboð þar sem spurt er hvort Metta Sport geti sent vörur til annarra landa.“

Í dag rekur Metta Sport eina verslun við Barónsstíg í Reykjavík. „Við erum fjögur í fullu starfi hjá fyrirtækinu og það getur tekið á, sérstaklega á annatímum eins og jólunum. Við viljum hins vegar veita sem besta þjónustu. Því er næsta skref að fjölga starfsfólki strax í ársbyrjun 2025. Að því loknu munum við skoða hugsanlega stækkun fyrirtækisins. Þetta hefur verið lærdómsríkt ár og við förum með fullt af nýjum verkefnum og hugmyndum inn í næsta ár.“

Er netsala hátt hlutfall sölu?

„Það fer eftir mánuðum. Þegar Metta Sport byrjaði var einungis um að ræða netverslun en í október 2021 stóð Metta Sport fyrir „pop-up“-sölu í rými í Síðumúla. Það gekk mjög vel og í kjölfarið opnaði Metta Sport verslun í sama rými. Ári seinna var það rými orðið of lítið og núna rekum við þessa einu verslun á Barónsstíg. Það er mjög gaman að vera með verslun og hún gefur Metta Sport og viðskiptavinum færi á að kynnast betur. Verslun skapar allt önnur tengsl við viðskiptavini, sem eru nauðsynleg fyrir merki eins og Metta Sport. Merkið Metta Sport er tiltölulega nýtt og ég tel vera mjög mikilvægt að viðskiptavinir geti komið til okkar til að prófa stærðirnar, sniðin og efnin og veita okkur endurgjöf á vörurnar.“

Halda áfram að læra

Spurður um helstu áherslur í markaðssetningu segist Pétur alltaf hafa lagt áherslu á vandaðar vörur og hann vilji að það skili sér áfram í öllu því sem snertir Metta Sport. „Minn metnaður nær því jafnframt til verslunarrýmis, vefsíðu og auglýsingaefnis, hvort sem það er útlit, hönnun, myndefni eða texti. Markmiðið er þó fyrst og fremst að bjóða upp á vandaðar og fallegar vörur sem henta sem flestum, óháð aldri og kyni, og að verð þeirra sé sanngjarnt. Langstærsti hluti viðskiptavina okkar hefur fram að þessu verið ungt fólk en ég held að fleiri eigi bara eftir að prófa fötin okkar og þannig uppgötva Metta Sport,“ segir Pétur og vill að lokum þakka viðskiptavinum fyrir stuðninginn. „Við Metta Sport-teymið höfum lært mikið á síðustu þremur árum og munum halda áfram að læra.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK