Uppfærsla innan MSCI ólíkleg á þessu ári

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. mbl.is/Eggert

Mogens Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að uppgjör skráðra félaga fyrir þriðja ársfjórðung 2024 voru flest mjög góð og gera má ráð fyrir fínum uppgjörum fyrir fjórða ársfjórðung.

„Verðlagning skráðra félaga er heilt yfir hófleg og því má búast við spennandi tímum á innlendum hlutabréfamarkaði á árinu 2025,“ segir Mogens.

Hann segir jafnframt að hann telji það afar ólíklegt að íslenski markaðurinn verði færður upp um flokk hjá MSCI, úr Frontier yfir í Emerging.

„Ég tel það ólíklegt í því ljósi að Marel er ekki lengur íslenskt félag,“ segir Mogens en Marel og Alvotech voru þau félög sem uppfylltu þær stærðartakmarkanir sem krafist er af MSCI til að geta færst upp um flokk.

Mogens bendir á að MSCI geri þær kröfur að þrjú félög séu hvert um sig með að lágmarki um 2.548 milljónir bandaríkjadala í markaðsvirði eða sem nemur um 357 milljörðum króna. Það verði því líklega einhverjar tafir á að við verðum með nógu mörg nægjanlega stór fyrirtæki til að geta uppfyllt þetta skilyrði.

Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar bætir við að ákvarðanir um slíkt séu yfirleitt teknar um mitt ár og að tvö fyrirtæki til viðbótar þurfi að kljúfa tveggja milljarða dollara múrinn.

„Ég tel þó að það sé möguleiki í náinni framtíð ef við sjáum veglegar nýskráningar og vöxt hjá núverandi skráðum fyrirtækjum. Það þarf ekki mikið að gerast hjá Arion eða Íslandsbanka til að þeir nái markinu,“ segir Magnús.

Hann kveðst bjartsýnn á að árið 2025 verði innlenda hlutabréfamarkaðnum hagfellt. „Ég er bjartsýnn á að við sjáum 3-5 nýskráningar,“ segir Magnús.

Spurður hvers vegna hann sé bjartsýnn á svo margar nýskráningar á árinu segist Magnús byggja það á þeim samtölum sem hann hafi átt við forsvarsmenn fyrirtækja og bendir á Coripharma, Samkaup og ferðaþjónustufyrirtæki.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum í morgun.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK