Arion spáir 4,9% verðbólgu

Hagstofan mun birta janúarmælingu vísitölu neysluverðs þann 30. janúar næstkomandi.
Hagstofan mun birta janúarmælingu vísitölu neysluverðs þann 30. janúar næstkomandi. Ljósmynd/Hagstofa Íslands

Greiningardeildir Íslandsbanka og Arion banka spá hækkun ársverðbólgu í janúar en Landsbankinn gerir ráð fyrir lækkun. Hagstofan mun birta janúarmælingu vísitölu neysluverðs þann 30. janúar næstkomandi.

Arion spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,06% í janúar sem þýðir að ársverðbólgan muni aukast í 4,9%.

„Bakslag verðbólgu í janúar setur svolítið línuna fyrir árið 2025 að okkar mati. Þó að við gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni á næstu mánuðum teljum við að verðbólga aukist á ný í haust þegar áhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða og háskóla detta út úr mælingunni. Þá teljum við að botninn sé úr gengisstyrkingunni og að krónan muni veikjast á nýjan leik þegar líða tekur á árið, með tilheyrandi áhrifum á innflutta verðbólgu," segir í greiningu Arion

Íslandsbanki spáir því að vísitala neysluverðs standi óbreytt milli mánaða í janúar. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan aukast lítillega og mælast 4,9%.

Í greiningu Íslandsbanka segir að hækkanir opinberra gjalda muni gera vart við sig eins og venjan er í janúar en útsölur en lægri flugfargjöld vega þar sterklega á móti.

„Til þess að spá okkar gangi eftir þarf gengi krónu að vera nokkuð stöðugt og launaskrið takmarkað. Þar að auki er til staðar óvissa varðandi kjarasamninga fyrir hluta opinberra starfsmanna sem enn hafa ekki skrifað undir. Einnig má nefna óvissu af alþjóðavettvangi bæði hvað varðar áhrif stríðsátaka og stjórnmála en einnig áhrif uppskerubrests á ýmsum landbúnaðarvörum,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Landsbankinn spáir 4,6% verðbólgu

Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,32% á milli mánaða í janúar og að ársverðbólga lækki úr 4,8% í 4,6%.

Í greiningu Landsbankans segir að lækkun vísitölunnar á milli mánaða skýrist af janúarútsölum og af lækkandi fargjöldum á flugi til útlanda, sem lækka að jafnaði á milli mánaða í janúar. Á móti vega hækkanir á opinberum gjöldum.

Í greiningu Landsbankans segir að spáin sé aðeins lægri en síðasta spá sem bankinn birti í kjölfar birtingar Hagstofunnar á desembermælingu VNV.

„Þá spáðum við að vísitalan myndi lækka um 0,24% á milli mánaða í janúar og að verðbólga myndi lækka í 4,7%. Munurinn skýrist ekki síst af því að verðmælingar ASÍ á matvælum gefa til kynna minni hækkun en við bjuggumst við og hið sama má segja um verðathugun okkar á bensíni og díselolíu,“ segir í greiningu Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK