Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Eftir að Pútín sendi Rússlandsher inn í Úkraínu varð skyndileg breyting á viðhorfi íslenskra stjórnmálamanna til varnarmála. Allir virtust hrökkva í kút og undanfarin þrjú ár hefur vart liðið sú vika sem stjórnvöld hafa ekki hamrað á þörfinni fyrir nýja og harðari stefnu, og almenningur virðist meira eða minna kominn á sömu línu.
Nýbakaður forsætisráðherra notaði meira að segja áramótaávarp sitt til að minna landsmenn á að við lifum á viðsjárverðum tímum og ekki lengur í boði fyrir Ísland að sitja á hliðarlínunni. Það er merkilegt að þessi tiltekni kafli í ræðu formanns Samfylkingarinnar hefði allt eins getað verið skrifaður af Birni Bjarnasyni, en hugmyndir hans um hernaðarmál þóttu lengi til marks um einhvers konar sérvisku á hægri vængnum og kjörinn efniviður fyrir skopmyndateiknara.
Mér þykir það jákvæð þróun ef Íslendingar eru farnir að huga að varnarmálum af meiri alvöru, en það er þá mikilvægt að bæði almenningur og stjórnvöld horfist í augu við að þegar kemur að hernaði og alvöruilldeilum á milli þjóða erum við algjörir viðvaningar. Ef ekki er farið varlega er því allt eins líklegt að aukinn metnaður í varnarmálum leiði bara af sér aukin útgjöld en geri sáralítið til að bæta varnir landsins.
Verst af öllu væri ef umræðan færi að einblína á að verja þurfi tilteknu hlutfalli landsframleiðslu til hernaðar- og varnarmála. Nató gerir kröfu um að 2% af landsframleiðslu sé varið til málaflokksins en til þessa hafa hernaðarútgjöld Íslands verið svo lág að landið kemst ekki einu sinni á blað í samanburðartöflum Nató.
Að leggja megináherslu á tiltekið prósentuhlutfall er dæmigerður stofnanahugsunarháttur og ávísun á bruðl og sóun. Það sem Ísland þarf er vönduð þarfagreining þar sem reynt er að læra af þeim þjóðum sem hefur tekist að sinna sínum vörnum vel en náð að halda kostnaðinum í lágmarki.
En ef vinir okkar í Nató þrýsta fast á um að ná 2% markinu (nú vill Trump að mörkin verði hækkuð upp í 5%) þá er eins gott að nýta allar mögulegar bókhaldsbrellur til að brúa bilið.
Þurfa skattgreiðendur heldur betur að vara sig því margir hugsa sér gott til glóðarinnar ef varnarmál verða risastór liður á fjárlögum, og væru vísir til að reyna að beita þingmenn og ráðuneytin miklum þrýstingi.
Það má vafalítið fegra varnarmálabókhaldið með ýmsum hætti. Með tiltölulega léttvægum áherslu- og skipulagsbreytingum mætti t.d. færa þróunaraðstoðina og hluta af lögregluliðinu undir varnarmálaflokkinn. Sérfræðingur sem ég ræddi við nefndi að það væri líka hægt að gera björgunarsveitirnar ögn „gráar“, eins og hann komst að orði, og þannig flokka þær sem heimavarnarlið.
Það er af og frá að leggja á herskyldu, en samt alveg athugandi að bjóða ungu og áhugasömu fólki upp á einhvers konar grunnþjálfun: námskeiðið ætti ekki að taka nema 7-8 vikur, eða part úr sumri. Minnstur tími færi í að læra á skotvopn en þeim mun meiri áhersla væri lögð á skyndihjálp, björgun, líkamlega hreysti, andlegan þroska, seiglu, framtakssemi og getuna til að starfa vel sem liðsheild. Þar væri lagður grunnur að myndun ágætis hóps sem gæti átt erindi í frekari þjálfun erlendis, og sem mætti senda út í heim að sinna mannbætandi mannúðar- og hjálparstarfi. Í skiptum mætti t.d. bjóða unga fólkinu að fá hluta námslánanna niðurfelldan, og þar með láta part af þeim útgjöldum sem renna til Menntasjóðsins ganga upp í prósentubókhald Nató.
Kæmi mér á óvart ef það mætti ekki líka flokka sem varnarútgjöld að reisa almennilegan alþjóðaflugvöll á Austurlandi, með tilheyrandi tönkum og turnum. Og ef grafa þarf göng á milli bæja úti á landsbyggðinni er upplagt að koma fyrir sprengjuhlerum við báða endana svo skilgreina megi göngin sem neyðarbyrgi. Hver segir svo að það snúist ekki fyrst og fremst um þjóðaröryggi að stórauka orkuframleiðslu og efla rafdreifikerfið svo það ráði betur við mögulegar árásir.
Ísland hefur hins vegar ekkert að gera við að kaupa rándýrar eldflaugar og dróna, og landið er svo fámennt að það væri galið að ætla að halda úti svo mikið sem einni herþotu.
Mér detta í hug tvö lönd sem Ísland ætti að hafa til fyrirmyndar: í varnarmálum getum við lært af Sviss og á diplómatíska sviðinu ættum við að líta til Katar.
Eflaust þekkja margir lesendur svissneska módelið, en varnir landsins byggjast á því að geta hindrað för innrásarhers og haldið uppi skæruhernaði ef þess þarf. Þar er herskylda fyrir karlmenn en þeir sem þess óska geta sinnt samfélagsþjónustu í staðinn. Eftir nokkurra mánaða þjálfun tekur við níu ára tímabil þar sem hermenn taka stuttar æfingalotur með nokkurra missera millibili og eru til taks ef á þarf að halda en þetta fyrirkomulag veldur sáralítilli röskun á námi og störfum unga fólksins. Skotvopnaeign er útbreidd í Sviss og algengt að menn geymi herrifilinn sinn heima að herskyldunni lokinni svo þeir geti stokkið til á augabragði ef óvinaríki skyldi ásælast Toblerone-birgðirnar.
Um landið allt er búið að grafa falin skotbyrgi og göng, og búið að hugsa fyrir því að ef til þess kemur verður hægt að sprengja upp brýr, lestarteina og vegi svo að innrásarlið gæti sig hvergi hreyft.
Þökk sé þessari nálgun eru útgjöld Sviss til varnarmála ekki nema 0,7% af landsframleiðslu og samt myndi enginn gera sér það að leik að ráðast þangað inn.
Ef heimskortið er skoðað sést að Katar lenti á afskaplega óheppilegum stað. Til austurs er Íran, sem er til alls líklegt, og til vesturs Sádi-Arabía sem hefur reglulega verið með leiðindi í garð katarskra frænda sinna. Allt um kring eru herská vandræðaríki og alltaf má eiga von á því að sjóði upp úr.
Þökk sé olíulindunum á Katar sand af seðlum og landið ver miklum fjárhæðum í rekstur hersins, en það sem hefur gert mest til að styrkja stöðu Katar eru ekki hermennirnir og vopnin, heldur hvernig Katarar hafa náð að beita „mjúku valdi“ og komið sér í þá stöðu að leika ómissandi hlutverk í Mið-Austurlöndum.
Tvennt kom þar til: Fyrir það fyrsta setti katarska ríkið sjónvarpsstöðina Al Jazeera á laggirnar árið 1996 og varð hún fljótlega ein vinsælasta og virtasta sjónvarpsrás og fréttaveita hins arabískumælandi heims. Þótt deilt sé um hve mikið ráðamenn í Doha skipta sér af ritstjórnarstefnu fjölmiðilsins þá tryggði Al Jazeera að rödd Katar heyrist um gervöll Mið-Austurlönd.
Katar ákvað líka að leyfa vondum körlum að eiga þar öruggt skjól. Fékk t.d. Hamas að starfrækja þar kontór og helstu leiðtogum samtakanna var, þar til nýlega, leyft að lifa þar í friði – þar sem leyniskyttur og sprengjur Ísraelshers gætu ekki náð til þeirra. Ástæðan var ekki sú að slúbbertarnir í Hamas væru svona miklir aufúsugestir í Doha, heldur hefur Katar viljað tryggja að stríðandi fylkingar hafi einhvern stað til að geta rætt málin. Þegar lönd hafa slitið stjórnmálasambandi, lokað sendiráðum og svara ekki í símann þegar hringt er má samt nota útsendara þeirra í Doha til að láta boð ganga á milli og reyna leiðtogar Katar að miðla málum eftir fremsta megni.
Með þessu er ég ekki að leggja til að gera RÚV að einhvers konar Al Jazeera, né legg ég til að Ísland leggi út rauða dregilinn fyrir diplómatískan rumpulýð af öllum gerðum. Punkturinn er frekar þessi: Með vandaðri og úthugsaðri langtímastefnu geta smáþjóðir aukið vægi sitt og áhrif í alþjóðasamfélaginu án þess að kosta miklu til, en alls engin töfralausn að ætla að eyða og eyða þangað til ákveðinni prósentutölu hefur verið náð.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.