Árið á innlenda hlutabréfamarkaðnum þróaðist með nokkuð öðrum hætti en búist var við í upphafi árs og á það sérstaklega við um fyrrihluta ársins. Verðbólgan var mjög þrálát framan af ári sem hafði í för með sér að vaxtalækkunarferlið hófst mun síðar en búist hafði verið við og því skilaði ávöxtun ársins sér nær öll á síðustu þremur mánuðunum.
Úrvalsvísitalan (OMXI15) hækkaði um 15,9% á árinu og stóð í lok árs í 2849,5 stigum. Leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði vísitalan (OMXI15GI) um 18,8%. Heildarvísitala Aðalmarkaðarins (OMXIPI) hækkaði um 12,5% á árinu og leiðrétt fyrir arðgreiðslum (OMXIGI) hækkaði vísitalan um 14,7%.
Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 1.251 milljarði eða 5.046 milljónum á dag. Til samanburðar var veltan með hlutabréf árið 2023 784,7 milljarðar, eða 3.139 milljónir á dag, og jókst veltan því um 61% milli ára.
Tvær nýskráningar áttu sér stað á árinu. Líftæknifyrirtækið Oculis var skráð á Aðalmarkaðinn og laxeldisfyrirtækið Kaldvík á First North-vaxtarmarkaðinn.
Árið fór þó af stað með nokkrum krafti þar sem jákvæðar fréttir bárust af tveimur af stærstu félögunum í Kauphöllinni auk þess sem langtímakjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum voru kláraðir í byrjun mars.
Þann 19. janúar á síðasta ári bárust fréttir frá Marel um að JBT hefði hækkað yfirtökutilboð sitt í þriðja skiptið og staðfest var að formlegt yfirtökutilboð yrði lagt fram á komandi vikum. Sama dag barst einnig frétt frá Alvotech um að verksmiðjuúttekt bandaríska lyfjaeftirlitsins FDA væri lokið með aðeins einni athugasemd til að fá leyfi fyrir sölu á lyfinu Simlandi í Bandaríkjunum, sem er líftæknilyfjahliðstæða við frumlyfið Humira sem er eitt mest selda gigtarlyf heims.
Mogens Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóððum, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að þrátt fyrir þessar jákvæðu fréttir hafi markaðurinn gefið eftir og lækkað sleitulaust frá febrúar og fram í byrjun september.
„Það voru einkum tvær ástæður fyrir veikum markaði á fyrrihluta ársins. Í fyrsta lagi mældist verðbólga í febrúar og mars töluvert umfram væntingar og þá varð ljóst að vaxtalækkunarferli gæti ekki hafist með vorinu. Í öðru lagi var á svipuðum tíma mikið framboð af nýju hlutafé frá fjórum félögum í Kauphöllinni, fyrir um 43 milljarða króna í heild. Þetta var vegna hlutafjáraukningar frá vaxtarfélögunum Alvotech, Oculis, Amaroq ásamt flugfélaginu Play. Þá má einnig nefna að uppgjör nokkurra félaga í Kauphöllinni á fyrrihluta ársins voru nokkuð lakari en væntingar, sem hafði neikvæð áhrif á virði félaganna,“ segir Mogens.
Verðbólguhorfur bötnuðu þegar leið á sumarið, sem sneri væntingum fjárfesta um að vaxtalækkunarferli gæti loks hafist með haustinu, og gæddi það markaðinn aftur miklu lífi undir lok sumars.
Seðlabanki Íslands lækkaði vexti tvisvar undir lok ársins, í október og nóvember, eða samtals um 0,75 prósentustig.
Mogens bendir á að það hafði einnig jákvæð áhrif að Seðlabanki Bandaríkjanna hóf sitt vaxtalækkunarferli 18. september en Seðlabanki Evrópu hóf hins vegar sitt vaxtalækkunarferli í byrjun júní enda tók verðbólga að hjaðna nokkuð fyrr beggja vegna Atlantshafsins en hér á landi.
„Það er því óhætt að segja að haustið hafi verið mjög gjöfult á innlendum hlutabréfamarkaði og árið 2024 hafi endað vel heilt yfir. Ekki er yfir miklu að kvarta á ári þar sem Úrvalsvísitala með arði hækkar um 18,8% og 20 félög af 28 á Aðallista Kauphallarinnar hækkuðu og einungis 8 félög lækkuðu. Þá voru erlendir hlutabréfamarkaðir einnig heilt yfir mjög góðir á árinu 2024 og þá sérstaklega í Bandaríkjunum,“ segir Mogens.
Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar segir í samtali við ViðskiptaMoggann að síðasta ár hafi verið gott á hlutabréfamarkaðnum þó markaðsaðstæður hafi verið erfiðar.
„Uppbygging markaðarins hefur haldið áfram þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Ávöxtunin og seljanleikinn á markaðnum tók við sér. Við fengum tvær fínar nýskráningar og einn flutning af First North yfir á Aðalmarkaðinn,“ segir Magnús.
Greinina birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.