Svipmynd: Óþörf skýrsluskrif kostnaðarsöm

Óttar segist verja töluverðum tíma í að hugsa nýjar leiðir …
Óttar segist verja töluverðum tíma í að hugsa nýjar leiðir til þess að bæta árangur Lánasjóðsins, t.d. með því að afla ódýrara lánsfjár. Morgunblaðið/Eyþór

Óttar Guðjónsson hefur mikla reynslu af banka- og verðbréfastarfsemi enda hefur hann starfað bæði á Íslandi og Bretalandi hjá ýmsum fjármálafyrirtækjum. Að hans mati erum við enn að súpa seyðið af of miklum vaxtalækkunum þegar covid-heimsfaraldurinn gekk yfir. Óttar er í svipmynd ViðskiptaMoggans þessa vikuna.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Háir vextir! Það segir sig sjálft að það er afleitt að þurfa að veita ný lán með 4% raunvöxtum þegar það eru bara tvö ár síðan við vorum að lána með 1 til 2% raunvöxtum.

Þegar litið er til baka verður augljóst að vextir voru lækkaðir of mikið á covid-tímanum og því miður erum við enn að súpa seyðið af því. Maður bara vonar að afkoma sveitarfélaga verði það góð á árinu að þau þurfi ekki að taka mikið af lánum.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Rekstur Lánasjóðsins og árangur hans við að afla ódýrara lánsfjár er mér svo til alltaf í huga og ég ver töluverðum tíma í að hugsa um nýjar leiðir til að ná árangri fyrir sjóðinn.

Ég fæ reyndar oft mikinn innblástur af að hitta þá aðila sem kaupa skuldabréf sjóðsins og ræða hvernig þeir sjá markaðinn og umhverfið.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Í vinnu er stór áskorun fram undan að tryggja öryggi tölvukerfa og ferla sem tengjast þeim. Næsta öruggt er að svokölluð DORA-reglugerð ESB verði lögfest á næstunni.

Ég óttast að hún verði ekki aðlöguð aðstæðum á Íslandi og látin gilda um litla jafnt sem stóra aðila þótt þar finnist mér gengið óþarflega langt. Það er okkar skoðun að reglugerðin sé viðamikil og geri miklar kröfur sem sumar eru óþarfi í okkar rekstrarumhverfi og kostnaðarsamt að fara eftir í smáatriðum.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Í nóvember var SFF með morgunverðarfund þar sem kynntar voru niðurstöður skýrslu Gunnars Haraldssonar um hvernig lækka megi vexti á Íslandi. Þar kom Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, með mjög áhugaverða tillögu um að Seðlabankinn hefði milligöngu um að koma á gjaldmiðla- og vaxtaskiptamarkaði með krónur og vexti í krónum.

Ég tel að það gæti dýpkað og bætt verulega skuldabréfamarkaðinn á Íslandi ef það væri virkur og sýnilegur markaður með einföldustu afleiður á vexti og erlenda gjaldmiðla gegn krónunni. Hér er ég bara að tala um það sem erlendis eru hefðbundin swap- og gjaldmiðlaskipti.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Árið 1994 las ég bókina Fixed Income Arbitrage og hún breytti algerlega hvernig ég hugsa um verðbréfa- og gjaldeyrismarkað. Nokkru síðar las ég svo Black Swan eftir Nassim Taleb og sú bók hafði grundavallaráhrif á hvernig ég hugsa um áhættu og áhættustýringu.

Þessar bækur eiga það sameiginlegt að fjalla um markaði með töluvert öðrum og raunsærri hætti en hefðbundnar kennslubækur fjármála- og hagfræði gera.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Síðustu þrjú árin var ég í meistaranámi í lögfræði en mæli ekki sérlega með að vera í svo miklu og erfiðu námi með fullri vinnu. Ég les mjög reglulega bækur um verðbréf og vexti og hef verulega gaman af bókum með frásögnum af verðbréfamarkaði.

Liars Poker er í sérstöku uppáhaldi og svo líka The Big Short til að nefna einhverjar. Bók Jóhannesar Nordal fyrrverandi seðlabankastjóra, Lifað með öldinni, finnst mér gefa frábæra innsýn í samspil efnhags-, stjórn- og heimsmála.

Annars reyni ég að lesa flest það opinbera efni sem gefið er út um efnahagsmál og verðbéfamarkað.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Mæti nokkuð reglulega á fimleikaæfingar í Gerplu með hópi sem kallast GGG. Mér finnst einfaldlega langskemmtilegast að hoppa á trampólíni. Svo reyni ég að skokka en það hefur verið bras eftir að ég fékk asma í kjölfar covid. Auðvelt ármótaheit að hlaupa meira 2025 en 2024.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Lög, reglur og kröfur til Lánasjóðsins taka ekkert tillit til þess hve einfaldur og straumlínulagaður rekstur hans er. Við þurfum því að mestu leyti að uppfylla sömu kröfur og fjármálafyrirtæki með miklu flóknari rekstur.

Þetta er bæði kostnaðarsamt og sérstaklega tímafrekt, þannig að við erum að verja stórum hluta tíma okkar í að uppfylla kröfur og skýrsluskil sem eru að okkar mati óþörf, bæði fyrir okkur sjálf og Seðlabankann sem er móttakandi skýrslnanna.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK